Ellert og Júlíus sigurvegarar Mývatnssleðans 2017

Bráðskemmtilegt myndband frá keppninni

0
472

Daníel Ellertsson og Júlíus Björnsson sigruðu í heildarkeppni Mývatnssleðans 2017 sem fram fór á ísnum á Alftavogi á Mývatni sl. laugardag, en keppnin var nú haldin í fjórða sinn. Keppt er á heimatilbúnum sleðum og eru tveir saman í liði. Rudd var sérstök braut á ísnum sem keppt var á.

Margir frumlegir sleðar sáust í keppninni í ár og klæddust keppendur búningum í stíl við sleðanna sína. Alls tóku 8 lið þátt í keppninni í ár. Flestir keppendur voru úr Mývatnssveit en tveir franskir keppendur tóku þátt nú í ár.

Mikil leynd hvílir yfir smíði sleðanna og er bannað að birta myndir af sleðunum fyrir keppni. Sleðarnir mega ekki vera vélknúnir og ekki má láta dýr draga þá. Keppendur verða sjálfir að draga eða ýta sleðnum í gegnum brautirnar. Í hraðabrautinni vinnur það lið sem kemst hraðast í gegnum brautina. Í þrautabrautinni mega keppendur trufla andstæðinga sína en sérstakir brautaverðir fylgjast með því að ekki sé gengið of langt í þeim efnum.

Júlíus og Ellert fagna sigri

Sigurvegarar Mývatnssleðans 2017, þeir Daníel og Júlíus, smíðuðu eftirlíkingu af bíl Fred Flintstone úr teiknimyndaflokkunum “The Flintstones” og hlupu eftir ísnum í bílnum. Þeir fengu verðlaunin “Vinsælasti sleðinn” fyrir sleðann sinn og urðu efstir í keppninni í samanlögðu. Stefán Pétur Sólveigarson og Þórmundur Blöndal unnu hraðabrautina, Ragnar Baldvinsson og Heiða Birna Bragadóttir unnu Þrautabrautina og Alma Dröfn Benediktsdóttir og Guðmundur Þór Birgisson unnu hönnunarkeppnina.

Stefán Pétur Sólveigarson skipuleggjandi Mývatnssleðans 2017 sagði í spjalli við 641.is í dag að aðalatriðið við keppnina sé að skemmta sér og öðrum og að það sé í raun mottó hennar. Að vinna hana sé aukaatriði. Myndband frá keppninni var sett inn á Facebook í gærkvöldi, hefur vakið nokkra athygli og hefur Stefán fengið margar fyrirspurnir út í keppnina og ljóst sé að margir séu áhugasamir um að vera með næst.

“Næsta keppni verður árið 2019 og kanski þurfum við að takamarka keppendafjöldann þá”, sagði Stefán að lokum.  Facebooksíða Mývatnssleðans

Hér fyrir neðan má horfa á skemmtilegt myndband frá keppninni.

Hér má sjá sigurvegara Mývatnssleðans 2017