Ég hefði átt….

0
79

Það er eitt og annað sem bærist innra með okkur manneskjum.  Eitt af því er að hugsa „Ég hefði átt…“ Það er svo ótalmargt sem við hugsum eftir á. Hvað ef ég hefði gert þetta, hvar stæði ég þá í dag, hvar væri ég nú hefði ég tekið þessa ákvörðun, hvernig ætli líf mitt hefði þróast?

Bolli Pétur Bollason

Vinsæl amerísk kvikmynd var sýnd fyrir fáeinum árum og nefnist „Sliding Doors.“  Kona nokkur flýtir sér að ná lest. Við fáum að fylgjast með framvindu lífs hennar bæði eftir að hún nær lestinni en einnig því sem gerist eftir að hún hefur misst af henni.

Myndin náði talsverðum vinsældum þar sem inntak hennar var vel til þess fallið að snerta mannssálina. Það þarf oft svo lítið atvik til að umbylta lífi okkar, tala nú ekki um ef þau eru stór. En ljóslega er einvörðungu hægt að varpa þessum þönkum upp á hvíta tjaldið, því þeir eru svo óraunhæfir.

Þeir geta þó komið að gagni séu þeir nýttir til að líta fram á veginn og því velt upp hvernig bregðast skuli við standi maður frammi fyrir svipuðum aðstæðum aftur. En við hvorki stoppum tímann né spólum til baka.

Það er ekkert eðlilegra en að eiga þessa hugsun „Ég hefði átt….“  Hún er t.a.m. hluti af sorgarferli, sem við öll þurfum einhvern tímann á ævi okkar að lifa og takast á við, hún er á leiðinni í átt að ákveðnu uppgjöri á lífsreynslu eða áföllum í lífinu. En hugsunin getur staðið ýmsum og ýmsu fyrir þrifum fái hún að nema of lengi staðar í hugskoti. Þá komumst við treglega áfram með líf okkar sé stöðugt verið að líta um öxl.

Við skyndilegan missi verða til þungar vangaveltur á borð við þessar:

„Ég hefði átt að kveðja betur þegar við sáumst síðast.“

„Ég hefði átt að banna þessa ferð.“

„Ég hefði átt að búa til fleiri frístundir.“

„Ég hefði átt að grípa til aðgerða áður en óveðrið skall á.“

Og vangavelturnar geta leiðst út í ósanngjarnar sjálfsásakanir, sem eru hvort í senn óraunhæfar sem og hreinar hindranir í þá veru að okkur finnst við ekki eiga neitt gott skilið, megum ekki þiggja þann stuðning sem býðst og verðum bara að harka af okkur sjálf og bíta á jaxlinn í takt við liðinn tíðaranda, sem hefur þó í einstaka tilvikum öðlast visst framhaldslíf, því miður.

Að þessu sögðu er gott að hafa eftirfarandi hugfast:

Þú stýrir ekki fortíðinni!

Þú getur haft jákvæð áhrif á framtíðina í nútíðinni!

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar!

Að þiggja stuðning eflir félagsauð, að þiggja hann ekki nærir einangrun!

Umfram allt felst stóri sannleikurinn í þessu kunna og heilnæma versi:

„Guð, gef mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til þess að breyta því
sem ég get breytt,
og vit til að greina þar á milli.“   Amen.

Bolli Pétur Bollason.