Ég gef þeim hafragraut og lýsi

0
99

„Ég gef þeim hafragraut og lýsi áður en þeir leggja af stað,“ segir Aðalheiður Kjartansdóttir, matráðskona í Stórutjarnaskóla í S-Þingeyjarsýslu, en 66 björgunarsveitarmenn sem vinna við að bjarga sauðfé úr fönn gista í skólanum. Þeir lögðu af stað laust eftir kl. sjö í morgun. Frá þessu er sagt á mbl.is

Góðar aðstæður eru í Stórutjarnaskóla, en þar er gömul heimavist sem ekki er lengur notuð á veturna. Þar er líka heitir pottar, en Aðalheiður segir að björgunarsveitarmennirnir hafi verið afar þakklátir að fá að komast í pottana í gærkvöldi eftir að hafa unnið fram í myrkur í gær við að grafa fé úr fönn.

Björgunarsveitarmenn borða morgunmat í Stórutjarnaskóla áður en þeir lögðu í hann.
Mynd: Heiða Kjartans.

Björgunarsveitarmennirnir fá að borða áður en þeir leggja af stað á morgnana, en síðan taka þeir með sér nesti sem Norðlenska, MS og Bakaríið við brúna hafa gefið. Þeir eru síðan að störfum allan daginn. Aðalheiður sagði að hún hefði verið með kvöldmat í gærkvöldi frá kl. sjö til ellefu þegar síðustu mennirnir komu í hús. Hún var síðan mætt áður en birti í morgun til að búa til hafragraut.

Talsverð rigning var gær og menn komu því í blautum göllum í hús. Aðalheiður sagði að góður þurrkklefi væri í skólanum og því hefði tekist að þurrka allan klæðnað af mönnunum í nótt.

Björgunarsveitarmaður handleggsbrotnaði

Björgunarsveitarmennirnir voru við leit á Flateyjardal og Þeistareykjasvæðinu í gær. Búið er að finna nokkur þúsund kindur. Mestallt sem fannst á Flateyjardal var lifandi, en meira var dautt af fé á Þeistareykjum. Mikil áhersla verður lögð á að leita á Þeistareykjasvæðinu í dag.

Gríðarlegur snjór er á Þeistareykjasvæðinu og voru skaflar sums staðar 3-5 metrar. Þeir hafa sigið talsvert eftir rigninguna í gær, en rigningin gerði það líka að verkum að erfitt var að ganga í snjónum.

Í morgun var þoka og rigningarúði á leitarsvæðinu.

Einn björgunarsveitarmaður handleggsbrotnaði í gær þegar hann fékk slæmt högg þegar hann ók vélsleða í snjónum. Stýrið skall í handlegginn sem brotnaði við höggið. Hann þurfti því að fara til Reykjavíkur í gær.

mbl.is