“Ég er ekki kominn til að vera skemmtilegur”

Viðtal við Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistara Framhaldsskólans á Laugum

0
1385

Sigurbjörn Árni Arngrímsson tók við stöðu skólameistara Framhaldsskólans á Laugum í Reykjadal fyrir rétt rúmum tveimur árum. Sigurbjörn er landsþekktur lýsandi í sjónvarpi frá hinum ýmsu íþróttakeppnum og þykja lýsingar hans einkar líflegar og skemmtilegar.  Sigurbjörn á einnig að baki nokkuð árangursríkan íþróttaferil.

Þegar tíðindamann 641.is bar að garði á skrifstofu Sigurbjörns í Framhaldsskólanum á Laugum til að fræðast nánar um ferilinn, blasti við stór mynd af honum á hurðinni ínn á skrifstofuna þar sem búið að að skrifa eftirfarandi texta, “Ég er ekki kominn til að vera skemmtilegur”. Þeir sem þekkja Sigurbjörn vita þó að hann er með skemmtilegri mönnum og sennilega eru þessi skilaboð ætluð nemendum.

En hver er Sigurbjörn ? Hvaðan er hann ?

Ég er fæddur á Húsavík þann 31. Ágúst 1973 en ólst upp í kennaraíbúð í Skútustaðaskóla í Mývatnssveit í nágrenni við ömmu mína í Álftagerði. Foreldrar mínir eru Arngrímur Geirsson og Gígja Sigurbjörnsdóttir sem bæði voru kennarar, lengst af í Mývatnssveit en kenndu bæði á Laugum um tíma. Konan mín er Gunnhildur Hinriksdóttir sem hefur undanfarin tíu ár starfað sem aðjúnkt við íþróttafræðasetur HÍ en hún hefur meistarapróf í íþróttafræði. Núna er hún nýtekin við sem framkvæmdastjóri HSÞ. Við eigum þrjú börn á grunnskólaaldri, Guðmund Gígjar fæddan 2003, Arneyju Dagmar fædda 2005 og Hinrik Frey fæddan 2009.

Sigrubjörn með viðurkenningu sem hann fékk við útskrift í USA

Ég gekk í Skútustaðaskóla í Mývatnssveit og kláraði svo grunnskólagönguna í Laugaskóla þar sem ég lauk svo stúdentsprófi á íþróttabraut árið 1993. FG sá reyndar um útskriftina því Laugar mátti ekki útskrifa stúdenta á þessum tíma þannig að ég er líka með stúdentsskírteini þaðan þó ég hafi aldrei komið þar inn. Hins vegar fékk ég enginn verðlaun fyrir að vera dúx í FG en Laugaeinkunnin mín var hærri en dúxinn í FG fékk vorið 1993.

Eftir stúdentsprófið fór ég á íþróttastyrk til University of Georgia í Aþenu í Georgíu í Bandaríkjunum. Kláraði þaðan B.S.Ed. gráðu í íþrótta- og heilsufræðikennslu í desember 1996 og einu og hálfu ári síðar lauk ég meistaraprófi í þjálfunarlífeðlisfræði sem er sérhæfing innan íþróttafræðinnar frá sama skóla. Vorið 2001 lauk ég svo doktorsprófi í sömu fræðigrein við University of Georgia og varð um leið fyrsti doktorinn til að útskrifast frá þeim skóla á nýrri öld því ég var fyrstur í stafrófinu (Arngrimsson).

Þú varst ráðinn sem skólameistari Framhaldsskólans á Laugum fyrir rúmum tveimur árum síðan. Hvernig hefur gengið og er eitthvað sérstakt sem stendur upp úr á þessum tveim árum ?

Sigurbjörn Árni önnum kafinn við störf á skrifstofu skólameistara á Laugum

Þetta hefur nú gengið alla vega. Aðallega vegna þess að ég veit ekkert hvað ég er að gera helminginn af tímanum. Þessi fyrstu tvö ár voru nú nokkuð erfið. Bæði var ég fjarri fjölskyldunni fyrsta eina og hálfa árið og bjó um tíma á heimavistinni eins og frægt varð, sem var svolítið sérstakt. Svo var fjárhagsstaða skólans ekki nógu góð þegar ég tók við en hafði þó verið að lagast frá fyrri tímum. Einnig komu upp samskiptavandamál í starfsmannahópnum og það er alltaf erfitt, ekki síst á jafnlitlum vinnustað. En núna er ég fluttur í Holt, fjölskyldan komin, fjárhagstaða skólans betri svo þetta er allt á uppleið.

Hefur þér tekist að ná fram einhverjum breytingum á skólastarfinu á Laugum og er eitthvað sem þú sérð fyrir þér að þú myndir vilja koma til leiðar til framtíðar í skólastarfinu ?

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Ég veit nú ekki hvort ég hafi náð fram breytingum per se. Hins vegar erum við í breytingarferli þennan veturinn hvort svo sem það er af mínu undirlagi eða meira vegna þess að við sem starfsmannahópur áttum okkur á að við þurfum sífellt að breytast og þróast til að vera lifandi skóli. Ég myndi vilja ná að hrista hópinn enn frekar saman þannig að við sitjum öll eins mikið við sama borð og hægt er og göngum í þau störf sem þarf að gera í heimavistarskóla hvort heldur sem þau eru akkúrat í okkar verkahring eða ekki. Svo þurfum við að auka nemendafjöldann í skólanum og skapa okkur stöðu sem skóli sem hugsar um heilbrigða sál í hraustum líkama.

 

Nú ertu búsettur á Laugum í Reykjadal. Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar og hvaða ókosti sérðu við það að búa á Laugum ?

Ég heyrði það haft eftir Steinþóri Þráinssyni þegar hann var skólameistari á Laugum að hann þyrfti að komast reglulega úr þessari moldarskoru upp í Mývatnssveit til að ná andanum. Að öllu gamni slepptu að þá finnst mér vanta fjallasýn og ákveðnir ókostir fylgja því að þurfa til Húsavíkur með börnin í hópíþróttir. Einnig finnst mér samfélagið hér í Þingeyjarsveit alla vega í Reykjadals- og Aðaldalshlutanum vera í sárum eftir sameiningu og skólaflutning og finnst vanta einingu. Mér finnst menn of mikið í skotgröfum og skiptast of mikið í við og þeir. Það væri miklu nær að sameinast um að hata hálfvitana í Mývatnssveit eða á Húsavík. Ég veit að það eru hins vegar ekki allir sammála mér um þetta og upplifa þetta ekki á sama hátt.

Ég sem utanaðkomandi maður furða mig á ýmsu. Öll þessi ungmennafélög eru eitt. Miklu nær væri að stofna Ungmennafélagið Þingeying í Þingeyjarsveit sem væri vel styrkt af sveitarfélaginu og sæi um æfingar fyrir ungmenni, 17 júní hátíðarhöld, jónsmessugleði, þrettándagleði o.s.frv. og þessir viðburðir og æfingar væru víðs vegar um sveitarfélagið. Svo eru björgununarsveitirnar annað en þær mætti styrkja með sameingu að mínu mati. Það þriðja sem ég varð nú bara var við núna um jólin eru öll þessi barnaböll. Væri ekki nær að börnin sem eru saman í skóla færu saman á barnaball og það væri þá hægt að halda þau til skiptis á á umráðasvæðum kvenfélaganna?

Kostirnir eru hins vegar klárlega veðrið. Það er á fáum stöðum á Íslandi meiri veðursæld en á Laugum. Oft logn, sérstaklega hérna austanmegin ár á vetrum og ekki mikil rigning á sumrin. Íþróttaaðstaðan er mjög mjög góð og ekki síðri en var við íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Við þurfum reyndar byggja strandblakvöll hérna sem er nægilega nálægt sundlauginni og þá vantar nú ekki mikið. Svo finnst mér fólkið líka bara flott og ef það ynni meira saman þá er ekki mikið sem takmarkar möguleikana hér.

Þú varst talsvert í frjálsíþróttum þegar þú varst yngri. Hver eru þín helst afrek á frjálsíþróttavellinum og standa enn einhver met sem þú átt ?

Sigurbjörn kemur fyrstur í mark í 800 m hlaupi fyrir nokkrum árum síðan

Ég var nú nokkuð sprækur svona eftir á að hyggja. Ég varð t.d. 42 sinnum Íslandsmeistara í karlaflokki í greinum frá 4×400 m boðhlaupi upp í hálft maraþon og enginn hefur náð Íslandsmeistaratitlum í hlaupum karla yfir jafnmargar vegalengdir enda gat ég hlaupið 400 m undir 50 sekúndum og hálft maraþon á 70 mínútum. Ég setti nokkur Íslandsmet, sem einstaklingur í 1000 m hlaupi og míluhlaupi inannhúss og svo ýmis met í boðhlaupum. Met mitt með sveit UMSS í 4×800 m boðhlaupi stendur enn og 17-18 ára met okkar Kristjáns Arnar Sævarssonar, Hákons Hrafns Sigurðssonar og Þorvaldar Guðmundssonar í 4×1500 m boðhlaupi í HSÞ er enn í gildi. Svo á ég besta tíma Íslendings í 600 m hlaupi utanhúss, en það er sjaldan hlaupið. Margoft varð ég bikarmeistari og Landsmótsmeistari og svo var ég landsliðinu í frjálsíþróttum frá 1997-2011 og í unglingalandsliði á undan því. Ég keppti einnig á heimsmeistaramótinu í víðavangshlaupum 2004 í Brussel. Svo má til gamans geta að ég varð heimsmeistari íþróttafréttamanna allt frá 2003 til 2007.

Sigurbjörn á palli þegar hann varð heimsmeistari íþróttafréttamanna

Nú ert þú vel þekktur sem lýsandi í sjónvarpi frá öllum helstu og stærstu frjálsíþróttamótum sem fram fara, eins og td. Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum og ert sennilega fróðasti maður um frjálsar íþróttir á alþjóðlega vísu á Íslandi í dag. Hvernig atvikaðist það að þú varst fengin sem lýsandi í sjónvarpi og hvaða mót var það fyrsta sem þú lýstir í sjónvarpi ?

Ég flutti heim sumarið 2001 og við Gunnhildur ákváðum sumarið eftir að fara í ferðalag til útlanda en það höfðum við ekki gert. Fyrir valinu varð að fara á EM í frjálsum í Munchen og ætluðum við að fara með vinum okkar Snjólaugu og Herbie sem voru með okkur í náminu í Bandaríkjunum og bjuggu í Þýskalandi. Svo nokkrum dögum fyrir brottför hringdi Samúel Örn Erlingsson í mig því hann átti að lýsa mótinu en Ingólfur Hannesson sem átti að lýsa því með honum fékk starf sem yfirmaður vetraríþrótta hjá EBU (European broadcasting union) og Sammi var þar með makkerlaus í lýsingunum. Sammi hafði frétt frá Vésteini Hafsteinssyni sem var landsliðsþjálfarinn í frjálsum á þessum tíma að ég ætlaði á mótið og datt í hug að fá mig með sér. Ég samþykkti þetta því ég hélt að þetta væri bara að setjast upp í stúku og lýsa því sem fyrir bar en það reyndist nú ekki svo. Þetta er margra tíma undirbúningur fyrir lýsingu og svo þarf að lýsa því sem fram fer. Fríið okkar reyndist því þannig að Gunnhildur sat ýmist ein eða með vinum okkar í stúkunni og þurfti svo að þola okkur Samma saman á kvöldin þar sem við vorum yfirleitt eins og hanar á haugi að reyna að toppa hvorn annan. Þannig að EM í Munchen 2002 var fyrsta mótið sem ég lýst.

Þú hefur ferðast víða um heiminn vegna starfa þinn sem lýsandi frá stórum frjálsíþróttamótum. Hvað hefur þú komið til margra landa vegna þeirra starfa og hvað heldur þú að mótin sé orðin mörg sem þú hefur lýst í sjónvarpi ?

Ætli þetta séu ekki um 30 stórmót erlendis frá og svo nokkur hér heima sem ég hef lýst af frjálsum, fyrir utan öll gullmótin sem voru sjö á sumri og demantamótin sem eru enn fleiri hvert sumar. Svo hef ég aðeins lýst blaki bæði á Ólympíuleikunum og hér heima og í London 2012 greip ég í sundið með Guðmundi Harðarsyni eitt kvöld. Löndin eru orðin ansi mörg sem ég hef komið til vegna lýsinga. Þýskaland, Frakkland, Ungverjaland, Grikkland, Spánn, Finnland, Rússland, Svíþjóð, Bretland, Japan, Kína og Brasilía, þannig að þetta eru alla vega 12 lönd og svo gæti ég verið að gleyma einhverjum. Ég missti hins vegar af S-Kóreu 2011 því þá lýsti ég bara mótinu úr Efstaleiti.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Sigurbjörn hefur lent í ýmsu skemmtilegu á sínum ferli bæði sem keppandi og lýsandi og ekki var annað hægt en að fá nokkrar skemmtilegar sögur svona í lok viðtalsins.

Sammi skólaði mig mikið til í íslenskunni og þó fannst mér ég nokkuð góður í henni fyrir. T.a.m. notaði ég sögnina að sigra oft vitlaust en þú sigrar andstæðing en ekki hlaup eða riðil. Svo einhverju sinni þegar ég fór mikinn í lýsingum og notaði sögnina sigra greinilega vitlaust því um leið og hlaupinu var lokið slökkti Sammi á hljóðnemanum og hvæsti útum annað munnvikið „notaðu sögnina að vinna, þú getur ekki klúðrað henni“. En Sammi hætti svo að skamma mig því hann sagði að ég áttaði mig svo oft á því þegar ég segði vitleysu um leið og ég segði hana og sagði að um leið hefði ég litið á hann eins og barinn hundur og þá hefði hann ekki getað fengið af sér að skamma mig.

 

Einhverju sinni var ég að lýsa með Adólfi Inga Erlingssyni og í dauðum tíma förum við að spjalla um þáverandi heimsmetahafa í 800 m hlaupi karla Vilson Kipketer frá Danmörku sem er Kenýjumaður að uppruna. Það berst í tal að ég og Sammi höfum hitt Kipketer í rútu á HM í frjálsum 2003 og spjölluðum við hann í um hálftíma. Þá spurði Dolli „og talaði Kipketer dönsku?“ ég svaraði „já fína dönsku, alla vega betri dönsku en ég“ þá sagði Dolli „en ekki betri dönsku en Sammi?“ og þá vissi ég ekkert hvað ég átti að segja því Sammi var þekktur tungumálamaður á RUV og þekktur fyrir að halda því fram að geta talað norsku, sænsku og dönsku óaðfinnanlega.

 

Valtýr Björn var fenginn til að lýsa með mér einu sinni og við settumst í stúdíóið. Valtýr opnaði og heilsaði áhrorfendum og kynnti sig og mig og mótið og stóð svo upp og gekk út. Ég hélt að hann hefði þurft að fara á salernið eða eitthvað þess háttar og byrjað bara að lýsa. Eftir drykklanga stund kemur Valtýr inn með samloku sest á stól úti í horni og borðar hana í rólegheitum og það passar að hann klárar hana þegar útsending var að klárast. Þá sest Valtýr aftur við hljóðnemann, þakkar áhorfendum og mér samfylgdina og kveður og slítur útsendingunni.

 

Svo hefur nú hrokkið upp úr mér ýmis vitleysan. Einu sinni lýsti ég heilu 1500 m hlaupi kvenna alla leið í mark og lýsti allan tímann sænsku stúlkunni í bláa og gula gallanum sem fyrstu manneskju og sem sigurvegara en þetta var þá víst úkarínsk stúlka en Úkraínumenn eru yfirleitt í sömu litum og Svíar. Öðru sinni sagði ég í 5000 m hlaupi kvenna þegar tveir hringir voru eftir og allar stúlkurnar í hnapp því hlaupið var hægt og mjög taktískt „á þessum hring eða næsta mun einhver þeirra taka af skarið og reyna að vinna hlaupið“. Það þurfti klárlega sérfræðing í frjálsum íþróttum til að sjá þetta fyrir eða þannig. Svo man ég eftir að hafa sagt um bandarískan blökkumann, sem keppti í stangarstökki sem var afar fátítt og hann var sá eini af þeim kynþætti í fremstu röð rétt eftir 2000, þegar ég mundi ekki hvað hann hét að hann væri svertinginn í stangarstökkinu. Þetta var á gullmóti sem voru tekin upp og send út daginn eftir. Sammi fór og fann upptökuna og klippti út þessi ummæli mín því það mátti ekki segja svertingi í sjónvarpinu. Hörður mágur minn gerði þetta að yrkisefni í brúðkaupi okkar þegar hann lét Freyþór son sinn syngja íþróttafréttamannabraginn úr leikritinu Landsmótið en heimfærði yfir á mig og þar komu setningarnar „það má ekki segja svertingi, og ekki húðaletingi“ fyrir.
Á smáþjóðleikunum í Mónakó 2007 áttust við í úrslitum KK í körfubolta Ísland og Kýpur. Ísland sigraði í miklum hitaleik þar sem Kýpur reiknað nú með að vinna og þeir voru mjög reiðir og ósáttir með dómgæsluna að loknum leik. Brugðið var á það ráð að læsa þá inni í búningsklefa meðan íslenska liðið og dómarar yfirgáfu svæðið og íslenska liðið komst ekki einu sinni í sturtu heldur dreif sig upp í rútu og hélt áleiðis á flugvöllinn. Á leiðinni var svo stoppað og liðinu afhent verðlaunin einhvers staðar í vegkanti en upphaflega átti að afhenda þau í íþróttahöllinni eftir leikinn.
Sögunni var þó ekki lokið því við urðum þrír eftir og fórum ekki heim með liðinu vegna þess að við vorum að fara annað. Ég var t.a.m. að fara til baka til USA en ég bjó þar á þessum tíma. Ég var svo fánaberi Íslands við lokaathöfnina og þar sem það var óttast um öryggi mitt og Rúnars fimleikamanns og Arnars tenniskappa. vorum við fjarlægðir af skemmtiferðaskipinu þar sem öll liðin gistu og settir á hótel uppí bæ og fengum ekki að taka þátt í lokahófinu og ballinu á eftir.
Vegna þess að ég sást í íslenska búningnum við lokaathöfnina voru mótshaldarar hræddir um að kýpversku körfuboltastrákarnir myndu taka reiði sína út á mér og/eða hinum tveimur íslendingunum og sögðust ekki geta tryggt öryggi okkar. Við vorum væntanlega svekktir yfir að fá ekki að taka þátt í partýinu en skildum ráðstafanirnar og hlýddum.
Hér er síðan sýnishorn af lýsingu Sigurbjörns frá OL í Rió 2016 og “lýsing” frá fæðingu hans yngsta barns.