Dettifossvegur – Brýn nauðsyn

Áskorun til Alþingis um lok framkvæmda Dettifossvegar

0
282

Örlygur Hnefill Örlygsson forseti sveitarstjórnar Norðurþings lagði í dag fram áskorun til Alþingis um lok framkvæmda Dettifossvegar, á 76. fundi sveitarstjórnar Norðurþings. Áskorunin var samþykkt samhljóða á fundinum.

Bókunin er eftirfarandi:

Það eru átta ár frá því framkvæmdir hófust við Dettifossveg vestan Jökulsárgljúfra og við hverjar kosningar hefur stjórnmálafólk talað fjálglega um lok framkvæmda, sem alltaf er þó frestað.

Íbúar við Öxarfjörð eru langþreyttir á síendurtekinni frestun framkvæmdanna. Þar er samfélag sem Byggðastofnun skilgreinir sem brothætta byggð, en á inni ótrúleg tækifæri á sviði ferðaþjónustu með náttúruperlur sem vekja athygli á heimsvísu. Sama stjórnmálafólk og talað hefur um uppbyggingu vegarins árum saman talar einnig um betri dreifingu ferðafólks um landið. Búið er að ræða uppbyggingu Dettifossvegar á Alþingi frá árinu 1999. Nú er kominn tími á aðgerðir en ekki aðeins fögur fyrirheit.

Dettifoss er aflmesti foss Evrópu og hefur oft verið valinn á lista áhugaverðustu og fallegustu fossa heims, og hefur þar prýtt lista ásamt Viktoríufossum og Niagarafossum. Mikil verðmæti liggja í að hafa slíka náttúruperlu hér á landi og ætti að vera eitt helsta verkfærið í verfærakistu ríkisstjórnar sem vill jafna dreifingu ferðafólks um landið.

Uppbygging ferðaþjónustu í Öxarfirði og á Melrakkasléttu, og árangur í uppbyggingarverkefni Byggðastofnunar/ríkisins, er að mjög miklu leyti háð lokum framkvæmda við Dettifossveg. Mun hann skipta sköpum á Kópaskeri, í Kelduhverfi og á Raufarhöfn. Opnun hans mun einnig efla ferðaþjónustu á Akureyri, Húsavík, í Þingeyjarsveit, við Mývatn og á Þórshöfn.

Með Dettifossvegi opnast tenging milli tveggja helstu perla Norðausturlands, Ásbyrgis og Dettifoss og um leið gífurlega verðmæt hringleið sem tengir þéttbýlisstaðina Húsavík og Akureyri og sveitir Þingeyjarsýslna. Einnig verður til þjóðbraut frá samfélögunum við Öxarfjörð og austur um sem tengir þau við þjóðveg 1.

Dettifossvegur er forgangsmál í Sóknaráætlun Norðurlands eystra og hefur aðalfundur Eyþings ályktað um málið árin 2010, 2011, 2014, 2016 og 2017. Í ályktunum frá árunum 2016 og 2017 er sérstök áhersla á að hér sé um að ræða forgangsverkefni.

Sveitarstjórn Norðurþings skorar heilshugar á þingmenn Norðausturkjördæmis að standa með þessum byggðarlögum og beita sér af alefli fyrir lokum framkvæmda við Dettifossveg. Það er skýlaus krafa Norðurþings að fjármagn verði veitt til að ljúka Dettifossvegi að fullu á árinu 2018.