Dagur kvenfélagskonunnar

0
558

1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Kvenfélagið í Rípurhreppi í Skagafirði er talið elsta kvenfélag landsins það var stofnað 1869.

Í Kvenfélagasambandi Suður-Þingeyinga eru starfandi 11 kvenfélög og þar eru tæplega 400 konur. Miðvikudagskvöldið 1. febrúar bauð Kvenfélag Mývatnssveitar öllum kvenfélögum í Kv.S.Þ. til samverustundar í Skjólbrekku, í annað sinn. Boðið var til kvöldverðar og skemmtidagskrár. Þegar gengið var inn í Skjólbrekku var tekið á móti konum af vinsemd og virðingu, allar 130 konurnar boðnar velkomnar, dúkuð borð, kertaljós og huggulegheit. Kvenfélagskonurnar mývetnsku buðu uppá dýrindis súpu og nýbakaðar bollur, kaffi og konfekt. Hvert kvenfélag bauð svo uppá stutt skemmtiatriði. Þessum skemmtiatriðum verður ekki með orðum lýst, þau voru svo fjölbreytt og frábær, bæði stórfyndin og svo hugvekjandi. Það var söngur, upplestur, vídeósýning, uppistand, lesið úr gömlu bréfi, kveðskapur, brandarar og svona mætti lengi telja. Það má með sanni segja að konur kunna að skemmta og skemmta sér. Þetta var virkilega ánægjuleg kvöldstund, allar yfirgáfum við Mývatnssveit með bros á vör og gleði í hjarta.