Dagatal tileinkað íslenskum lömbum – Söfnun hafin á Karolina Fund

0
266

Ragnar Þorsteinsson sauðfjárbóndi og ljósmyndari, í Sýrnesi í Aðaldal gerði tilraun með útgáfu Lambadagatala með ljósmyndum af lömbum árin 2015 og 2016 með stuðningi góðra aðila. Viðtökur voru mjög góðar þrátt fyrir lágmarks markaðssetningu. Í ár ætlar Ragnar hinsvegar að auka við útbreiðslu lambadagatalsins og því er efnt til fjármögnunar verkefnisins á Karolinafund.

Ragnar Þorsteinsson í Sýrnesi
Ragnar Þorsteinsson í Sýrnesi

Fram kemur á síðu söfnunarinnar að Lambadagatalið prýði stórar og fallegar andlitsmyndir af nýlega fæddum lömbum í sínu náttúrulega umhverfi. Myndirnar fanga fegurð þeirra, persónuleika og þá einstöku dásemd sem fólgin er í nýju lífi. Dagatalið er í A4 stærð (hæð 297 mm og breidd 210 mm) þar sem hver mánuður er á einni blaðsíðu. Það er gormað með upphengju og því auðvelt að hengja það upp þar sem hentar. Á það eru merktir allir hefðbundnir helgi- og frídagar einnig eru merkingar fyrir; fánadaga, komu jólasveinanna, gömlu mánaðaheitin og ýmsa aðra daga er tengjast sögu lands og þjóðar.

Dagatalið er því ekki eingöngu fallegt heldur inniheldur líka þjóðlegan fróðleik og er því tilvalið til gjafa og ekki hvað síst jólagjafa. Fallegar myndirnar og þjóðlegur fróðleikurinn veitir dagatalinu líftíma umfram það ár sem venjan er með dagatöl. Hverju Lambadagatali sem selt verður á Karolina Fund fylgir Lambakort með ljósmynd af unglömbum sem er hluti af verkefninu.

Ekki vitað til þess að áður hafi verið gerðar álíka myndaseríur af íslenskum unglömbum og hér er unnið með.

Söfnunin hófst í dag og stendur í 40 daga. Sjá nánar á Karolina Fund   Lambadagatalið á Facebook

ragnar-thorsteinnson-lambadagatal