Comeniusarverkefnið Internet-less FL nýlokið

0
94

Verkefnavinna og undirbúningur vegna Comeniusarverkefnis Framhaldsskólans á Laugum gekk afar vel og hafa næstu tvö ár verið skipulögð. Verkefnið heitir “INTERNET-less” og fjallar um, líkt og nafn þess gefur til kynna, að hvetja ungt fólk að nýta þau tækifæri sem standa til boða til að eiga í auknum félagslegum samskiptum án veraldarvefsins. Frá þessu segir á heimasíðu Framhaldsskólans á Laugum

Mynd frá verkefnavinnunni.
Mynd frá verkefnavinnunni.

 

Kennarar sem koma að verkefninu eru 14 talsins, frá 8 löndum – Tyrklandi, Búlgaríu, Ítalíu, Spáni, Litháen, Portúgal, Póllandi og Íslandi. Hildur Stefánsdóttir, verkefnisstjóri Framhaldsskólans á Laugum á Þórshöfn, er aðalumsjónarmaður verkefnisins frá Íslandi og Júlía B. Sigurðardóttir er samstarfsmaður hennar í verkefninu.

Stefnt er á heimsókn til allra skólanna frá þessum sjö löndum næstu tvö ár, þar sem verður farið fyrst til Spánar, nánar tiltekið Kanaríeyja, í febrúar 2014. Endað verður í Tyrklandi í júní 2015.

 

T.d. hefur verið komið á gamaldags pennavinasamböndum, þjóðdansaball verður haldið í hverjum skóla fyrir sig, stutt leikverk verður unnið o.fl., o.fl. Lokaafurð verkefnisins verður samantekt á viðburðunum úr hverjum skóla fyrir sig, sem og sameiginleg skýrsla með samansettum upplýsingum allra landanna sem taka þátt.

Nokkrum nemendum verður boðið tækifæri til að fara í einhverjar af þessum ferðum, þar sem þeir munu þá gista hjá fjölskyldu úti og fara í skólann þar líka og kynnast þannig menningu þess lands og taka virkan þátt í verkefninu sjálfu. Ákveðnum kröfum þurfa þeir nemendur að mæta, sem eiga möguleika á að sækja um að taka þátt, og verður það kynnt síðar.