Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga – Heiðurshornið og Hvatningarverðlaun afhent

0
647

Á aðalfundi Búnaðarsambands Suður Þingeyinga sem haldinn var mánudaginn 9. apríl voru að venju veitt verðlaun. Í sauðfjárræktinni voru Heiðurshornið og Hvatningarverðlaunin veitt en í nautgriparækt eru veitt verðlaun fyrir bestu kýrnar fæddar 2013.

Heiðurshornið sem veitt er í minningu Eysteins Sigurðssonar frá Arnarvatni, var veitt í 12 sinn. Samkvæmt núgildandi úthlutunarreglum komu 29 bú til endanlegs útreiknings en megin áhersla er lögð á lömb til nytja og vöðvaflokkun en hlutfall vöðva og fituflokkunar vegur fimmtung.

Fyrsta sætið og Heiðurshornið hreppti að þessu sinni Benedikt Arnbjörnsson á Bergsstöðum en hann hlaut 19,72 stig. Í öðru sæti voru Sigurður og Helga í Skarðaborg með 18.78 stig og í þriðja sæti var Eyþór Pétursson í Baldursheimi 2 með 18.51 stig.

Benedikt Arnbjörnsson rak fyrrum rausnar fjárbú, en hefur á undanförnum árum fyrst og fremst einbeitt sér að hrossarækt með góðum árangri. Enn lifir þó í gömlum glæðum og þó hann eigi ekki mjög margt fé er ræktunarstarfið greinilega í hávegum haft og má sérstaklega geta þess að hann hefur tvö lömb til nytja eftir ána sem er frábær árangur.

Hvatningarverðlaun BSSÞ voru veitt í fyrsta skipti árið 2009. Til útreiknings koma öll bú sem hafa 50 ær eða meira og tekið er mið af fjölda lamba til nytja, fallþunga og hlutfalls milli vöðva- og fituflokkunar. Búið sem fær lægsta tölugildið ber sigur úr býtum.

Sauðfjárbúið á Brún fær hvatningarverðlaun BSSÞ að þessu sinni. Helga og Sigurður í Skarðaborg voru í öðru sæti með 11,50 stig og í þriðja sæti var Svartárkotsbúið með 12,25 stig.

Á Brún hefur verið rekinn fyrimyndarbúskapur áratugum saman með megin áherslu á góðar kýr. Brún er fallegt býli og þangað er til fyrirmyndar heim að horfa. Óneitanlega hefur alltaf verið glæsileiki yfir fjárstofninum. Þaðan hafa komið fallegir hrútar til sæðingastðöðvar og margir sjálfsagt hallað höfði að Lagði heitnum sem hefur verið gerður ódauðlegur á púðaverum og svuntum í samnefndu fyrirtæki. Á Brún er einnig mikil og góð frjósemi og má til gamans geta að þar voru 1.97 lömb til nytja.

Guðrún Tryggvadóttir form. BSSÞ, Böðvar Baldursson, Linda Hrönn Arnþórsdóttir,Ingólfur Víðir Ingólfsson, Þórunn Jónsdóttir, Rúnar Jóakimsson og Hlöðver Pétur Hlöðversson BSSÞ.

Í nautgriparæktinni hefur myndast sú hefð að veita verðlaun fyrir bestu kýrnar í hverjum árgangi. Að þessu sinni voru þau veitt fyrir kýr sem fæddar eru árið 2013. Til grundvallar verðlaununum eru að kýrnar séu lifandi í árslok 2017, fyrir liggi að minnstakosti 6 efnamælinganiðurstöður á heilu mjaltaskeiði. Kýrnar mega ekki hafa verið eldri en 3 ára við burð og burðartilfærsla sé ekki óeðlilega mikil.

Fyrstu verðlaun hlutu Böðvar Baldursson og Linda Hrönn Arnþórsdóttir fyrir kúna Gæs 393 með 298.4 heildarstig, faðir hennar er Úlli 10089. Annað sætið hlutu Ingólfur Víðir Ingólfsson og Hulda Skarphéðinsdóttir fyrir kúna Huppu 220 með 297,6 heildarstig, faðir hennar er Lúður 10067. Í þriðja sæti voru Rúnar Jóakimsson og Þórunn Jóndóttir fyrir kúna Drífu 483 en hún var með 296,8 heildarstig, faðir hennar er Koli 06003.