Bully

0
82

Það var um daginn, sem ég horfði á sérstæða heimildarmynd. Hún er bandarísk og heitir Bully, við skulum segja að Bully þýði yfirgangsseggur, þar til annað kemur í ljós. Myndin fjallar um harkalegt einelti á skólabörnum í biblíubelti Bandaríkjanna. Það verður seint sagt að um sé að ræða öfgalaust belti. Myndin ber þess augljós merki. Einhverjir skólar hér á landi hafa sýnt þessa kvikmynd börnum og foreldrum sem víti til varnaðar og til þess að vekja fólk til vitundar um skaðsemi þessarar félagslegu meinsemdar, einelti er vissulega dauðans alvara.

Bolli Pétur Bollason

Bully þótti mér athygliverð að ýmsu leyti.  Fyrir það fyrsta þá skildi myndin áhorfandann eftir í algjöru vonleysi, það virtist ekki vera nein leið út úr eineltisvandanum. Þolendur mættu allsstaðar lokuðum dyrum, í skóla og á heimilum, hjá  eigin foreldrum, allir brugðust. Það vottar sem sagt ekki fyrir neinum lausnum eða leiðum.

Þetta var svona fyrir mér eins og að meðtaka jólin án Jesúbarnsins. Ég varð því einkennilega dapur eftir að hafa horft á myndina, þó hef ég blessunarlega aldrei þurft að þola einelti sjálfur, en þá spyr ég mig hvaða áhrif svona mynd hefur á þá sem hafa þurft að þola slíkt og eru að kljást við meinið og afleiðingar þess?

Ég get vart hugsað það til enda. Þá velti ég því jafnframt fyrir mér eftir áhorfið hvort þetta efni frá biblíubelti djúpsuðurríkja Bandaríkjanna gæti yfir höfuð kennt okkur eitthvað og hvort það hefði  nokkurn tímann getu til þess að lána okkur einhverja dómgreind. Væntingar mínar eru ekki miklar í því sambandi. Fræðslugildið felst þó kannski einkum í því að sýna okkur eðli og afleiðingar öfga eins og birtist t.a.m. í annarri heimildamynd frá sömu slóðum og heitir Jesus Camp. Þar getum við m.a. áttað okkur ljóslega á því hvað felst í trúarlegum heilaþvotti og svokallaðri innrætingu þannig að kristnilífið hérlendis lítur út eins og spyrjandi sunnudagaskólabarn í samanburði.

Ég er ekki með þessu að upphefja eigin þjóð á kostnað suðurríkja Bandaríkjanna, íslendingar kannast líka við öfga svo mikið er víst, en út frá þessum fyrrnefndu heimildarmyndum verður ekki annað séð en að við séum þó ekki aftast á merinni hvað umræðu snertir um samskipta-eða trúmál. Ég vil samt benda á eitt mikilvægt atriði, sem hefur opinberað á vissan hátt stjórnleysi og öfga hvað varðar þessa áðurnefndu þætti samskipta og trúar hér á landi og er verulega þarft að upplýst samfélag bæti og lagi, ég tala nú ekki um ef það hefur  meiri undirliggjandi áhrif á eineltisvanda þjóðarinnar en okkur getur grunað.  Þar erum við að tala um illt umtal. Í því samhengi er ég ekki að slá á það að fólk hafi skoðanir á gjörðum og skoðunum annarra, heldur hvernig við tölum um fólk, það er til hugtakið orðvendni, er felur það í sér að hemja tungu sína, segja ekki alla hluti við eða um alla.

Við þurfum ekki að leita lengra en í athugsemdakerfi fjölmiðla til þess að sjá öfgana í hinu illa umtali, þar virðast ekki vera nein mörk, þar spyr maður sig virkilega hvað liggi á bak við, erum við að tala þar um vettvang fyrir fólk til að fá útrás fyrir eigin reiði og gremju sem sprottin er úr jarðvegi einhverra annarra vandamála?  Hið illa umtal í samfélaginu skilar sér nefnilega til barnanna og getur hæglega leitt ómótaðar sálir inn á brautir eineltis og annars ofbeldis, sem viðheldur vítahringnum.  Hvernig tala foreldrar um annað fólk inni á heimilum sínum, tala þeir óvarlega í áheyrn barna sinna? Gætum að því.

Til sveita áður fyrr og vafalaust enn í dag tókust menn á við nágranna um landamerki og skepnuumgang. Þetta gátu í sumum tilfellum orðið óleysanlegar eilífðardeilur og kynslóðir er eftir komu hlutu þær í arf. Samskiptavandinn litaði svo alla sveitina og vel flestar stofnanir þær, sem hún fóstraði, og síst dró það úr einelti í skólum. Íslenskt samfélag er ekki fjarri því að vera eins og staðbundið sveitarfélag, þar sem deilur milli manna, meiðyrði og illt umtal er þeim fylgja hleypa illu blóði í annars viðkvæman jarðveg fámennisins og í slíku umhverfi verður seint hægt að skýla sér á bak við hið svokallaða tjáningarfrelsi.  Eina leiðin er að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum, tala varlega um náungann, þekkja hugtakið orðvendni, kenna þannig kynslóðum þeim er fá jörðina í arf að við högum okkur ekki eins og öfgakenndir yfirgangsseggir heldur eins og siðað fólk með sjálfsvirðingu.

Aðventan er ekki verri tími en hver annar til þess að ígrunda það í bland við margt annað er snertir það stóra verkefni að vera manneskja.

Bolli Pétur Bollason