Búfjárfjöldi og heyfengur

0
106

MAST birti í dag tölur um fjölda búfjár 2012. Lítilsháttar fjölgun varð á sauðfé á milli áranna 2011 og 2012. Árið 2011 var heildarfjöldinn 474.759 gripir en 476.262 í fyrra (+0,4%). Fjölgun síðasta áratuginn er 1,6%. Fjöldi sauðfjár í landinu hefur verið stöðugur á bilinu 450-500 þúsund síðustu 20 árin. Hann fór síðast yfir 500 þúsund árið 1991. Vefurinn sauðfé.is segir frá.

logo mast

Nautgripir eru 71.500 og hefur þeim fækkað um 1700 frá 2011 (-1,7%). Fjölgun síðasta áratuginn er 6,4%. Hross eru 77.400 og fækkaði um 1100 milli ára (-1,1%).

Þeim hefur eftir sem áður fjölgað um 9% á síðustu 10 árum.

Einnig eru birtar tölur yfir annan búfénað s.s. svín, loðdýr og fleira. Geitum heldur til dæmis áfram að fjölga. Þær voru 857 árið 2012 en fyrir áratug voru þær aðeins 361.

Heyfengur var 2,6% minni árið 2012 en árið á undan, eftir metuppskeru 2010. Kornuppskera dróst aftur á móti verulega saman, eða um rúman fjórðung (13.900 tonn á móti 18.800 tonnum 2011) Árið 2011 skilað mjög góðri kornuppskeru og niðurstaðan 2012 er mjög svipuð árinu 2010.

Heyfyrningar bænda minnkuðu verulega á milli áranna 2011 og 2012, eða um heil 40% (úr 314.000 rúmmetrum í 191 þúsund). Ætla má að enn frekar hafi gengið á birgðirnar á yfirstandandi ári, einkanlega norðanlands þar sem vetur var óvenju langur. Bændur á þeim svæðum keyptu að auki talsvert magn af heyi af Suður- og Vesturlandi á fyrri hluta þessa árs.

Fóðurtölur byggja á skráningu bænda en búfjártölurnar á talningu búfjáreftirlitsmanna.

Hægt er að skoða öll gögn að baki tölunum hér.