Braggast á sólstöðum tilnefnt til Eyrarrósarinnar

0
91

Braggast á sólstöðum er meðal þeirra tíu verkefna sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar 2015. Eyrarósin er menningarverðlaun sem Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð Reykjavíkur veita ár hvert fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggð-inni. Á heimasíðu Byggðastofnunar segir að í Bragganum í Öxarfirði hafi verið metnaðarfullt sýningarhald síðastliðin 10 ár með áherslu á samtímalist.

Eyrarrósin 2015

 

 

 

 

 

 

 

 

Bragginn er rekin af listakonunni Yst með það að markmiði að halda árlegar sýningar og vera í stöðugri nýsköpun. Fjöldi listamanna hefur tekið þátt í sýningum og menningarviðburðum í Bragganum.

Hin níu verkefnin sem tilnefnd eru til Eyrarósarinnar í ár eru Frystiklefinn í Rifi, verkefnið Ferskir vindar sem er alþjóðleg listahátíð í Garði, Listasafn Árnesinga, Listasafnið á Akureyri, Orgelsmiðjan á Stokkseyri, Sköpunarmiðstöð á Stöðvarfirði, Verksmiðjan á Hjalteyri, Þjóðlagasetrið á Siglufirði og Nes Listamiðstöð á Skagaströnd.

Verkefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og koma alls staðar að af landinu. Þann 18.mars næstkomandi verður tilkynnt hvaða þrjú verkefni hljóta tilnefningu til verðlaunanna. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands en hin tvö verkefnin hljóta peningaverðlaun og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.

Eyrarrósin verður afhent með viðhöfn laugardaginn 4.apríl næstkomandi á Ísafirði. Að venju mun Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhenda verðlaunin.