Bráðum kemur betri tíð

með blóm í haga

0
625

Nú um helgina göngum við að kjörborði.

Á Ð- listanum er ungt fólk á öllum aldri, innblásið af ferskleika, sem er tilbúið til að vinna að hag sveitarfélagsins. Nú er lag að gefa unga fólkinu tækifæri á að vinna sér inn traust með góðum störfum fyrir sveitarfélagið.

Fyrir þá sem gætu haft áhuga á tölfræði og staðreyndum er einmitt skemmtilegt að segja frá því að meðaldur þeirra sjö efstu á lista Framtíðar er 16 árum lægri en á lista Samstöðu.

Kosningar snúast um rétt til að velja og við teljum okkur vera góðan kost til að merkja við á laugardaginn. Við á Ð- listanum hlökkum til að takast á við framtíðina með samstöðu að leiðarljósi hvort sem við verðum í meiri- eða minnihluta sveitarstjórnar eftir kosningar

Við reiknum með að samstarf Ð og A lista muni ganga vel næstu fjögur ár enda stigsmunur, en ekki eðlis á afstöðu framboðanna til mikilvægra verkefna sem blasa við sveitarstjórn á komandi kjörtímabili.

Þar má nefna húsnæðismál, sorphirðu og nýja umhverfisstefnu auk þess sem málefni aldraðra eru okkur öllum mjög ofarlega í huga. Síðast en ekki síst skólamál, þar sem stefna framboðanna virðist nú í dag nánast sú sama sérstaklega þegar kemur að að opnunartíma leikskóla.

Eftir að hafa fylgst með kosningabaráttu frambjóðenda Samstöðu undanfarið er ljóst að margt af því sem þau vilja koma í gegn á kjörtímabilinu er Framtíðinni mjög að skapi.

Við höfum auk þess vakið athygli á verðugum málefnum sem hljóta að fá brautargengi í góðu samstarfi listanna eftir kosningar.

Okkar sýn er að rekstur sveitarfélags snúist ekki eingöngu um krónur og rekstrarafgang, heldur um að skapa umhverfi þar sem íbúar fái góða þjónustu frá sveitarfélaginu og að það sé eftirsóknarvert til búsetu. Því markmiði verður aðeins náð með framsýni, góðri nýtingu fjármuna og skynsamlegum fjárfestingum

Þeim mun betra sem samstarf framboðanna verður eftir kosningar, þeim mun meiri líkur eru á að kraftar allra kjörinna fulltrúa nýtist sveitarfélaginu vel. Við sem ólumst upp í fámennum sveitum þekkjum það vel að hver einasti einstaklingur skiptir máli til að allir þættir samfélagsins virki sem skyldi. Nú má vera að sumum finnist að fyrst við erum svona sammála A-listanum hefði í raun verið óþarfi að bjóða fram annan lista.

Það er samt svo að lýðræði er hornsteinn samfélagsins og samfélagið er hornsteinn lýðræðisins. Kosningar og framboðsfundir hjálpa okkur við að fá fram fleiri sjónarmið í umræðurnar og hvað íbúum liggur á hjarta.

Við höfum fundið fyrir góðum meðbyr úr ýmsum áttum undanfarnar vikur og viljum þakka öllum þeim sem hafa hvatt okkur til góðra verka fyrir stuðninginn og vonum svo sannarlega að Framtíðinni takist að standa undir væntingum þeirra.

Það hefur verið gríðarlega gaman að vinna saman að undirbúningi þessara kosninga og hópurinn í kringum framboðið, sem kemur úr ólíkum áttum, hefur unnið mjög vel saman og mun gera það áfram í félaginu sem verður stofnað í kjölfar kosninga.

Við ætlum að eiga góð samskipti við alla íbúa sveitarfélagsins og þau  eiga að vera óþvinguð og umfram allt sem ánægjulegust!

Nýtum kosningaréttinn og tryggjum að raddir sem flestra kjósenda heyrist í sveitarstjórn.

Frambjóðendur Framtíðar Ð-lista