Bókin Mannorðsmorðingjar – Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðlunar á Íslandi eftir Björn Þorláksson er komin út

0
172

Bókin Mannorðsmorðingjar – Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðlunar á Íslandi eftir Björn Þorláksson er komin út hjá Bókaútgáfunni Sölku. Bókin á sérstakt erindi við Norðlendinga, enda fjalli einn hluti hennar sérstaklega um ýmsar áskoranir sem fylgi því að vera blaðamaður í látlausum árekstrum við nærumhverfi í fámennri byggð.

Mannordsmord

 

Eigi að síður eru efnistökin oft kómísk þótt fjallað sé um alvarlega hluti og undantekningarlaus hafi lesendur til þessa gefið bókinni þá einkunn að hún sé skemmtileg.

Hvert er gjald gagnrýninnar blaðamennsku?

„Ef fjölmiðlar þegja yfir því sem miður fer, þora ekki annað – meðal annars vegna þess að þeir vilja ekki lenda upp á kant við umhverfi sitt – hvaða áhrif hefur þá slík þöggun til langframa fyrir samfélag, af hvaða stærð sem er?“

 

Björn Þorláksson hefur undanfarna áratugi starfað sem blaðamaður, fréttastjóri, ritstjóri, útvarpsmaður, sjónvarpsmaður og þáttastjórnandi. Hann hefur oft lent í hringiðu stóratburða og stundum þurft að taka afleiðingum óvægins fréttaflutnings, enda þekktur fyrir snöfurmannlega framgöngu í fjölmiðlum. Hér er hvorki á ferðinni venjuleg blaðamennskubók né dæmigert fræðirit, heldur umfjöllun um hlutverk og stöðu íslenskra fjölmiðla með sjálfsævisögulegu ívafi. Björn hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum, og útkoman er ögrandi lesning, skemmtileg og upplýsandi.

 „Í bókinni sem hér liggur fyrir koma saman margir þræðir sem í heild leiða lesandann að betri skilningi á félagslegu og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðlanna ásamt því að veita innsýn í sínálægan tilvistarvanda hins góða blaðamanns.“ Þorbjörn Broddason prófessor.

 

Hér fyrir neðan má lesa kafla úr bókinni.

Félagsmótun ungra MA-nema
Engir tveir menn upplifa sama atvik alveg eins. Því er rétt að staðsetja sig og setja fyrirvara við að hvorki er minni þess sem hér skrifar óbrigðult né heldur er tryggt að sjónarhorn frásagnarinnar sé laust við hlutdrægni. En í ákveðnum skilningi varð visst upphaf eitt kvöldið heima á Víðimelnum í Vesturbæ Reykjavíkur þegar Árni Gunnarsson, þáverandi blaðamaður á Tímanum, síðar aðstoðarmaður ráðherra og varaþingmaður, en núna kvikmyndagerðarmaður, hringdi í mig. Árni var mér að góðu kunnur eftir vinskap og samleigu, bæði sunnan heiða og norðan. Hann vatt sér strax að erindinu og spurði hvort ég gæti prófarkalesið á blaðinu og helst byrjað strax. Þannig er lífið stundum innan fjölmiðlaheimsins. Orðið strax er mikið notað.

Á þessum tíma, veturinn 1991-1992, var ég tónlistarmaður að atvinnu. Hafði viðurværi af því að spila með hljómsveitum, leika á flygil og hljómborð á skemmtistöðum, hótelum og börum. Hafði reyndar líka fylgst býsna vel með samfélagsmálum og kunni réttritun sæmilega. Las blöðin frá unga aldri. Hljóp að sögn mömmu minnar, fjögurra ára gamalt örverpi, andstutt milli fullorðinna í fjölskyldunni vetrarkvöld eitt, eftir að hafa arkað á snjóþrúgunum upp á brúsapall og spurði: „Mamma, hvernig geta börn verið skotin í Víetnam?“ 

Þá hafði pósturinn komið með vikuskammt af Tímanum og skilið hann eftir í póstkassa Voga 2 og 4. Á forsíðu blasti við fyrirsögnin: „Börn skotin í Víetnam“. Ég varð snemma skotinn í mývetnskum stelpum en grunaði að Víetnam væri ekki stelpa, af því að í Víetnam var alltaf eitthvað ógnvænlegt að gerast. Hvað þýddi þessi fyrirsögn að börn væru skotin í Víetnam?

Þetta var á þeim árum sem ólíkar kynslóðir fylgdust með fjölmiðlum saman. Að hlusta á útvarpsfréttir var fastur liður á bernskuheimilinu í Mývatnssveit. Í Vogum lærðu öll börn snemma að í matartímanum væri sagt sem minnst til að trufla ekki fréttirnar. Sjónvarpið kom seint í sveitina en þegar það kom sótti ég mest í fréttir og umræðuþætti um stjórnmál. Þar var spennan, þar fannst mér birtast átök ósanninda og sanninda. Snemma fór ég að skoða látbragð stjórnmálamanna, reyndi að greina líkamlega afhjúpun þeirra svokölluð „tell“ þegar ég taldi þá segja ósatt. Það átti eftir að nýtast mér í póker og brids síðar þegar reið á að sjá í gegnum blöff og blekkisagnir. Starf blaðamannsins hefur kennt mér að þjálfa upp eiginleika til að reyna að greina hvað sé lygi og hvað sannleikur. Að birta lygi sem staðreynd er versta blaðamennska í heimi og vinnur augljóslega gegn almannahagsmunum. Blaðamennska snýst um staðreyndir en hún snýst líka um innsæi og næmi.

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Meirihluti starfsævi minnar hefur farið í að segja og skrifa svokallaðar harðar fréttir, átakafréttir, en þeir sem þekkja mig best vita að ég er enginn harðjaxl, þvert á móti fremur viðkvæm manneskja eins og lífshlaupið bendir til, maður sem ætti sem sjaldnast að standa í átökum. Í bernsku var ég svo viðkvæmur allt fram yfir fermingarár að ég þurfti ekki annað en hugsa um eitthvað sorglegt eða fallegt, þá fóru tárin að streyma niður kinnarnar. Það var á mörkunum að ég hefðist við í hrjóstrugum heimi hásléttunnar í Mývatnssveit, einkum þegar veturnir voru langir. Ef ég hefði ekki getað flúið annars vegar yfir í íþróttir og hins vegar inn í mjúkt skjól listsköpunar hefði farið illa. Pedalana tróð ég á harmonium orgeli heimilisins um leið og ég náði niður. Barði síðar stofupíanóið út í eitt í takt við vængjaslátt fugla á vatnsbakkanum. Die Forelle ómaði stundum í útvarpinu sem síðasta lag fyrir fréttir, mér fannst við hæfi að syngja silungnum lofsöng, hann hafði haldið lífi í Mývetningum í 1000 ár.