Björgunarsveitirnar í Þingeyjarsýslu eru menn ársins !

0
424

Björgunarsveitirnar í Þingeyjarsýslu og hinn almenni Björgunarsveitarmaður eru Þingeyingar ársins 2012 samkvæmt vali lesenda Skarps.is, 640.is og 641.is. Þetta varð ljóst nú í hádeginu, þegar kosningu um Þingeying ársins 2012 lauk á fréttamiðlunum þremur. Þetta eru: Björgunarsveitin Ægir á Grenivík, Björgunarsveitin Týr á Svalbarðsströnd,  Björgunarsveitnin Stefán í Mývatnssveit, Björgunarsveitin Þingey, Hjálparsveit Skáta í Reykjadal og Hjálparsveit Skáta í Aðaldal, allar í Þingeyjarsveit, Björgunarsveitin Pólstjarnan á Raufarhöfn, Björgunarsvetin Hafliði á Þórshöfn, Björgunarsveitin Núpar á Kópaskeri og Björgunarsveitin Garðar á Húsavík

Guðmundur Helgi Bjarnason með lamb sem hann gróf upp úr fönn.Mynd: Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.
Guðmundur Helgi Bjarnason með lamb sem hann og félagar hans í Hjálparsveit Skáta í Reykjadal grófu upp úr fönn við Stafn í Reykjadal 11 sept sl.
Mynd: Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

Björgunarsveitirnar fengu 161 atkvæði eða um 31% atkvæða og unnu kosninguna nokkuð örugglega. Alls voru greidd 515 atkvæði í kosningunni í þá fjóra daga sem kosningin stóð yfir, sem er afar góð þátttaka. Lesendur gátu valið á milli 7 aðila sem fengu felstar tilnefningar daganna fyrir jól, sem allir voru vel að tilnefningunum komnir.

 

 

Myndin hér að ofan, sem Sigurður Hlynur Snæbjörnsson björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit Skáta í Reykjadal tók í útkalli í Stafn í Reykjadal sem sveitin fékk þann 11. september sl, er klárlega ljósmynd ársins hér á 641.is. Mynd þessi var birt í öllum helstu fjölmiðlum landsins og rataði meira að segja inn í einhverja erlenda miðla. Myndin sýnir vel þær aðstæður sem björgunarsveitirnar þurftu að glíma við daganna og vikurnar eftir óveðrið 10-11. september.

Mikið álag var á Björgunarsveitarfólki í Þingeyjarsýslu í september við að bjarga sauðfé sem fennti í septemberóveðrinu og unnu Björgunarsveitirnar ómetanleg starf með bændum og sjálfboðaliðum. Þar fyrir utan eru þær alltaf tiltækar við leit og björgun í öllum veðrum, alla daga og nætur.

641.is óskar Björgunarsveitunum í Þingeyjarsýslu til hamingju með kjörið.

Á næstu dögum verður forsvarsmönnum björgunarsveitanna í Þingeyjarsýslu afhent sérstak viðurkenningarskjal í tilefni af vali lesenda frá fjölmiðlum í Þingeyjarsýslu.