Bestu botnarnir úr Þingeyjarskóla

0
243

Á heimasíðu Námsgagnastofnunar er sagt frá þvi í dag, að úrslit í vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2013, liggi nú fyrir. Þetta er þriðja árið í röð sem Námsgagnastofnun efnir til keppninnar í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember og þökkum við nemendum og kennurum kærlega fyrir þátttökuna. Bárust vísubotnar frá 32 skólum víðs vegar að á landinu, frá samtals 288 nemendum. Einum nemanda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta vísubotninn en fyrriparta samdi Ragnar Ingi Aðalsteinsson.

Brimir og Eyþór.
Brimir og Eyþór.

Á yngsta stigi var horft sérstaklega til innihalds vísubotnsins og ríms og var Brimir J. Búason hlutskarpastur en hann er nemandi í 4. bekk Þingeyjarskóla í Þingeyjarsveit (deild Litlulaugaskóla). Hans vísubotn er hér feitletraður:

 

 

Sjáið hvernig skólin skín,
sendir geisla inn til mín.
Máninn stóri mætir senn
með stjörnur líkt og fylgdarmenn.

Á miðstigi voru nemendur beðnir um að huga vel að ljóðstöfum og rími. Hlaut Eyþór Alexander Hallsson, nemandi í 7. bekk Þingeyjarskóla í Þingeyjarsveit (deild Litlulaugaskóla), verðlaun fyrir að botna bestu vísuna í sínum aldursflokki:

Ligg ég hér og les í bók,
létt er mér í skapi.
Eyðir skrímslum Ofurbrók,
áttum þó hann tapi.

Á unglingastigi var gerð krafa um ljóðstafi og rím og fékk Ragna Benedikta Steingrímsdóttir, nemi í 8. bekk Brekkubæjarskóla á Akranesi, verðlaun fyrir sinn vísubotn:

Létt er okkar lærdómsbraut,
líður brátt að jólum.
Allir leysa létta þraut
í lífsins góðu skólum.

Námsgagnastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum fyrir þátttökuna.

Sjá nánar hér