Bætt aðgengi í Dimmuborgum

0
160

Landgræðslan og Umhverfisstofnun hlutu á árinu rúmlega tveggja milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi ferðamanna í Dimmuborgum. Talið er að yfir 200.000 manns heimsæki Borgirnar árlega. Augljóst er að slíkur fjöldi  ferðamanna veldur miklu álagi á göngustíga þar og viðkvæman gróður. Frá þessu segir á vef Landgræðslunnar.

Mynd af vef landgræðslunnar.
Mynd af vef landgræðslunnar.

Tekin var ákvörðun um að nota styrkinn til að malbika göngustíginn frá aðkomunni í Borgirnar og inn á Hallarflöt en til gamans má geta þess að þar er sæti jólasveinanna, sem fara nú brátt að láta sjá sig í Dimmuborgum.  Snjóbræðslukerfi var sett í hluta stígsins, ekki síst til að bæta aðgengi fatlaðra og auka öryggi ferðamanna almennt.

 

Fyrirtækið Kraftfag ehf. var ráðið til verksins og  þótti starfsmönnum þess mikið til koma að vinna í slíku umhverfi. Á næstu árum er stefnt er að því að malbika fleiri göngustíga í Dimmuborgum og bæta merkingar. Einnig þarf að bæta aðstöðu fyrir farartæki með því að malbika og merkja bílastæði. Framgangur þeirra mála ræðst síðan af því hvernig gengur að tryggja fjármagn til verksins.