Áttunda úthlutun VAXNA

0
114

Á fundi sínum 8. nóvember sl. samþykkti verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðausturlands að veita átta verkefnum vilyrði um þátttöku. Alls bárust ellefu umsóknir að þessu sinni þar sem sótt var um tæpar 18,8 mkr. en áætlaður heildarverkefniskostnaður um 40,9 mkr. Heildarupphæð veittra styrkvilyrða er  9,1 mkr og er heildarverkefniskostnaður þeirra verkefna sem vilyrði hlutu áætlaður um 29,3 mkr. Frá þessu segir á vef Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Mynd af styrkþegum og fulltrúum þeirra; Sigrún, Derri, Svava, Lilja, Óli, Örlygur Hnefill, Jón Sveinn, Sigríður, Vilborg og fjölskylda.
Mynd af styrkþegum og fulltrúum þeirra;
Sigrún, Derri, Svava, Lilja, Óli, Örlygur Hnefill, Jón Sveinn, Sigríður, Vilborg og fjölskylda.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Með þessari úthlutun hefur verið úthlutað úr yfirstandandi samningi til 39 verkefna, samtals 69,4 mkr. og standa tæpar 13 mkr. eftir til ráðstöfunar en samningurinn gildir út árið. Hefur verkefnisstjórn ákveðið að næsti og síðasti umsóknarfrestur þessa árs verði til og með föstudagsins 6. desember.

Styrkvilyrði voru afhent á veitingastaðnum Gamla Bauk 15. nóvember sl.  Þau verkefni sem vilyrði hlutu að þessu sinni eru:

Vordægur í Mývatnssveit – allt að kr. 300.000-  Forsvarsaðili Sel Hótel Mývatn og samstarfsaðilar Mývatnsstofa ehf og Jarðböðin við Mývatn. Verkefnisstjóri er Ásdís Jóhannesdóttir. Markmið verkefnisins er vöruþróun og markaðssetning á dvöl og afþreyingu fyrir eldri borgara í Mývatnssveit fyrir utan háannatíma ferðaþjónustu.

Þjónustusókn og samfélagsábyrgð – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili Þekkingarnet Þingeyinga og samstarfsaðilar eru Háskólinn á Akureyri, Byggðastofnun, Langanesbyggð og Norðurþing.  Verkefnisstjóri er Gréta Bergrún Jóhannesdóttir. Markmið verkefnisins er rannsókn á þjónustusókn, samfélagsvitund og samfélagsábyrgð fjölskyldna á svæðinu frá Bakkafirði til Öxafjarðar.

Menningarminjar í ferðaþjónustu
 – allt að kr. 1.000.000,- Forsvarsaðili er Ferðaþjónustan á Narfastöðum og samstarfsaðilar Menningarmiðstöð Þingeyinga, Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands. Verkefnisstjóri er Unnsteinn Ingason. Markmið verkefnisins er að nýta árangur rannsókna á sviði forminja til nýsköpunar í ferðaþjónustu og búa til nýjar minjaslóðir.

Kryddjurtaframleiðsla – allt að kr. 1.000.000,- Forsvarsaðili er Derri Stephens og samstarfsaðilar eru Sölkuveitingar ehf og Norðurþing. Verkefnisstjóri er Derri Stephens. Markmið verkefnisins er tilraunaræktun á kryddjurtun, rannsóknarræktun og markaðsrannsóknir.

Könnungarsögusafnið allt að kr. 1.500.000,- Forsvarsaðili er Könnunarsögusafnið ehf. og samstarfsaðilar Bókaverslun Þórarins Stefánsson, Gistiheimili Húsavíkur ehf og Arctic Edge Consulting ehf. Verkefnisstjóri er Örlygur Hnefill Örlygsson. Markmið verkefnisins er að efla ferðaþjónustu og framboð afþreyingar á Norðausturlandi með stofnun safns sem fjallar um könnunarsögu mannsins og tengsl Íslands og Þingeyjarsýslna við hana.

Bárðdælskir réttir– allt að kr. 500.000,- Forsvarsaðili er Kiðagil ehf. og samstarfsaðilar Stóruvellir ehf. og hópur einstaklinga í Bárðardal. Verkefnisstjóri er Sigurlína Tryggvadóttir. Markmið verkefnisins er að markaðssetja vörur og matvæli frá þessum hópi undir einum hatti og vörumerki auk þess sem farið verður í frekari vöruþróun.

Vanda vöruþróun, markaðsaukning og útflutningur – allt að kr. 800.000,- Forsvarsaðili er Vanda ehf. og samstarfsaðilar Ístex, Nik Peros og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Verkefnisstjóri er Vilborg Stefánsdóttir. Verkefnið gengur út á frekari þróun og hönnun á nýrri vörulínu, markaðssetningu og útflutning á erlendan markað.

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslu – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili er Stofnun rannsóknarseturs Háskóla Íslands og samstarfsaðilar Þekkingarnet Þingeyinga, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Húsavíkurstofa, Norðursigling ehf, Gentle Giants – Hvalaferðir ehf, Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf, Jarðböðin ehf og Reynihlíð ehf. Verkefnisstjóri er Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir. Um er að ræða þriggja ára rannsóknarverkefni á hagrænum áhrifum ferðaþjónustunnar í Þingeyjarsýslu.  Rannsóknin ætti einnig að geta legið til grundvallar ákvarðanatöku um frekari uppbyggingu atvinnugreinarinnar á jaðarsvæðum. Hún er unnin samhliða sambærilegri rannsókn á þjóðhagslegum áhrifum ferðaþjónustu og munu niðurstöður þessa verkefnis spegla og sannreyna í héraði tölfræðivinnslu þjóðhagsstærða.