Áskorun til ferðaþjóna á Norðurlandi

0
157

Ég hef aldrei nokkurn tímann stílað inn á það að fara í búð þegar hún er lokuð. Mér hreinlega dettur það ekki í hug. En auðvitað eins og karlmanni sæmir hef ég misskilið opnunartíma af og til, en það er óvart. Ég hef heldur aldrei búist við að einhver komi til mín þegar það er lokað og læst.

Þetta er svona svipað og ástandið er í ferðaþjónustunni á landsbyggðinni um þessar mundir. Ferðaþjónar, sér í lagi þeir smærri, eru tvístígnadi yfir því hvort þeir eigi að hafa opið yfir vetrartímann. Það er í sjálfu sér eðlilegt ef litið er 10 ár aftur í tímann. En í dag eru breyttir tímar og sú hugsun að það þýði ekkert að hafa opið „því það komi enginn,“ er að verða barn síns tíma.

Vetrarferðaþjónusta er mikið í umræðunni þessa dagana. Við sjáum að þar liggja okkar helstu tækifæri til vaxtar í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Hér höfum við snjóinn, myrkrið, kuldann og norðurljósin og að sjálfsögðu bæði gistingu og veitingar. Að ekki sé minnst á frábæra vetrarafþreyingu sem er í boði um allt Norðurland hjá metnaðarfullum þjónustuaðilum. Hér er líka nóg af gistirými yfir vetrarmánuðina og því mikil vaxtartækifæri á þessum annars rólega tíma.

Hér á Norðurlandi er ýmislegt sem þarf að laga áður en við getum farið að tala um okkur sem áfangastað allt árið. Eitt af því er opnunartími veitingastaða, gistihúsa, afþreyingar og fleiri staða. Til þess að byggja upp vetrarferðamennsku þarf að vera opið.

Við ferðaþjónar í Eyjafjarðarsveit, félagar í Ferðamálafélagi Eyjafjarðarsveitar, höfum ákveðið að opna sveitina okkar alla föstudaga í vetur. Ekki svo að skilja að hér sé öllu jafnan nein sérstök gæsla á hreppamörkunum, heldur viljum við stíga eitt skref í þá átt að þjónusta ferðamenn betur yfir veturinn og gefa þeim kost á að njóta þess sem okkar svæði hefur upp á að bjóða. Um tilraunaverkefni er að ræða sem við skoðum svo í vor hvernig hafi lukkast. Á föstudögum á milli kl. 14 og 18 geta ferðamenn og aðrir, gengið að þjónustu opinni í sveitinni. Sumir staðir eru þegar opnir allt árið, en alls ekki allir og nú ætlum við að ríða á vaðið með tilraun sem við vonumst til að gangi vel og verði öðrum svæðum hvatning.

Draumastaðan er sú að fleiri afmörkuð svæði á Norðurlandi taki upp þessa aðferð. Opni hjá sér einn fastan dag í viku yfir vetrartímann. Vestur-Húnvetningar gætu byrjað á mánudögum, nágrannar þeirra í A-Húnavatnssýslu gætu tekið þriðjudaga, Skagfirðingar miðvikudaga, austurströnd Tröllaskagans og Svalbarðsströnd / Grenivík fimmtudaga, Eyjafjarðarsveit föstudaga og ferðaþjónar í Þingeyjarsýslum verið með helgaropnanir. Þetta er dæmi um það sem hægt er að gera.

Með þessu móti stóraukum við möguleikana á því að halda ferðamönnum lengur hér á Norðurlandi, þeir geta hafið sitt ferðalag á öðrum enda svæðisins og unnið sig svo inn á Norðurlandið eftir því sem vikudögunum líður. Þetta gæfi jafnvel möguleika á sérstökum vikupökkum til sölu.

Ég skora hér með á ferðaþjóna á Norðurlandi að setjast niður og skoða hvort þetta sé eitthvað sem sé fýsilegt í eflingu vetrarferðaþjónustu. Ferðamálasamtök og -félög einstakra svæða gætu tekið sameiginlega svona verkefni upp á sína arma. Hugarfarsbreytinga er þörf er varðar vetraropnun og með þessari aðferð væri stigið lítið skref fram á við, sem ekki ætti að vera neinum ofviða.

Karl Jónsson

Formaður Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar,