Ársþing HSÞ – Þórarinn Ragnarsson er íþróttamaður HSÞ 2018

0
2215

Ársþing HSÞ fór fram í Skjólbrekku í Mývatnssveit í gær sunnudag. 60 þingfulltrúar frá 19 aðildarfélögum HSÞ mættu á þingið, auk gesta frá ÍSÍ og UMFÍ. Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ heiðraði tvo einstaklinga fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina. Jón Friðrik Benónýsson fékk gullmerki ÍSÍ og Kristján Stefánsson Mývetningi fékk silfurmerki ÍSÍ.

Viðar Sigurjónsson afhendir Jóni Friðriki Benónýssyni gullmerki ÍSÍ
Jón Friðrik Benónýsson (f. 1949) eða Brói eins og hann er jafnan kallaður hefur verið viðloðandi frjálsíþróttastarf hjá HSÞ nánast samfleytt í meira en hálfa öld. Á sínum yngri árum var Brói lykilmaður í frjálsíþróttaliði HSÞ og fór svo seinna að þjálfa frjálsíþróttir bæði hjá einstökum félögum innan HSÞ sem og frjálsíþróttaráði HSÞ. Brói hefur verið aðalþjálfari sambandsins með stuttum hléum frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og allt fram á síðasta ár. Hann hefur sannarlega verið potturinn og pannan í frjálsíþróttastarfi HSÞ og átti t.a.m. mjög stóran þátt í enduruppbyggingu barna- og unglingastarfs hjá HSÞ í upphafi þessarar aldar, þjálfaði bæði hjá HSÞ og keyrði út í félögin til að þjálfa. Undir hans stjórn átti HSÞ lengi vel barna- og unglingalið í fremstu röð sem og frjálsíþróttamenn í fremstu röð. Brói hefur alla tíð sinnt sínu starfi af metnaði og fylgt sínum iðkendum um allar koppatrissur. Hann hefur reynst iðkendum sínum traust fyrirmynd sem þau bera virðingu fyrir og án hans er erfitt að sjá hvernig frjálsíþróttastarf innan HSÞ hefði verið. Þá hefur Brói verið öflugur liðsmaður leikdeildar Umf. Eflingar og tekið þátt í 20 leikverkum með Eflingu.
Viðar Sigurjónsson afhendir Kristjáni Stefánssyni silfurmerki ÍSÍ
Kristján Stefánsson (f. 1964) er félagsmálamaður af gamla skólanum og hefur tekið þátt og starfað fyrir flest félög í Mývatnssveit í fjölda ára. Kristján hefur verið formaður Golfklúbbs Mývatnssveitar í 20 ár af þeim 30 sem klúbburinn hefur starfað og hefur haldið klúbbnum á lífi í mörg ár. Sem formaður hefur hann staðið fyrir uppbyggingu vallarins og umgjörðar hans. Ekki má gleyma viðhaldi vallarins sem er ekkert einfalt þar sem hann liggur í nálægt 300m hæð yfir sjávarmáli. Kristján hefur einnig starfað mikið fyrir Mývetning og þá sérstaklega er snýr að skíðaiðkun, en Kristján var einn af þeim sem tóku þátt í að koma skíðalyftunni upp í Kröflu, og eftir það að sjá um viðgerðir á lyftunni, troða brautir, keyra börn á æfingar og mót til fleiri ára.

 

Þó nokkur mál voru rædd og samþykkt á ársþinginu. Þar á meðal voru siðareglur fyrir HSÞ og aðildarfélög þess samþykktar. Viðbragðsáætlun og verklagsreglur HSÞ vegna aga-, eineltis-, ofbeldis- og kynferðisbrota voru einnig samþykktar. Stefna HSÞ varðandi verkefnið “Æfum alla æfi” var samþykkt með orðalagsbreytingum. Tillaga um fækkun aðalmanna í stjórn HSÞ úr sjö í fimm var sömuleiðis samþykkt. Aðild Skotfélags Þórshafnar og nágrennis að HSÞ var samþykkt og einnig var samþykkt að Gólfklúbburinn Gljúfri fái fulla aðild að HSÞ á ný.

Tillaga stjórnar HSÞ um breytingar á skiptingu lottótekna var hinsvegar felld og einnig tillögur um breytingar á orðalagi reglugerðar um Fræðslusjóð HSÞ. Miklar umræður urðu um tillögu stjórnar HSÞ þess efnis að HSÞ fari með stjórn og starfsemi Umf. Gamans og alvöru og beri ábyrgð á eignum þess. Fór svo að tillagan var felld.

Jónas Egilsson verður áfram formaður HSÞ og með honum í stjórn sitja Stefán Jónasson, Selmdís Þráinsdóttir, Jón Sverrir Sigtryggson og Ásdís Inga Sigfúsdóttir.

Þórarinn Ragnarsson er íþróttamaður HSÞ 2018

Þórarinn Ragnarsson íþróttamaður HSÞ 2018

Kynnt var val á íþróttamönnum ársins í ýmsum greinum sem stundaðar eru á félagsvæði HSÞ og einn af þeim, Þórarinn Ragnarsson Hestamannafélaginu Snæfaxa, var valinn íþróttamaður HSÞ 2018. Hann var einnig valinn Hestamaður HSÞ 2018. Umsögn um Þórarinn má lesa hér fyrir neðan.

Þórarinn Ragnarsson er fæddur og uppalinn á Gunnarsstöðum í Þistilfirði árið 1989 og er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hann rekur hrossaræktarbúið Vesturkot ásamt unnustu sinni. Hann hefur verið að keppa í mörg ár með góðum árangri. Afrek Þórarins í hestaíþróttum árið 2018 var eftirfarandi:
Meistaradeildin í hestaíþróttum: 2. sæti í fimmgangi, 5. sæti í flugskeiði, 5. sæti í 150m skeiði, 7. sæti í tölti. Reykjavíkurmeistaramót: 6. sæti í tölti, 7.-8. sæti í fimmgangi. Opna íþróttamót Sleipnis: 4. sæti í fjórgangi. Landsmót hestamanna: 6. sæti í tölti. Íslandsmót: 2. sæti í fimmgangi, 5. sæti í fjórgangi, 7. sæti í tölti. Þá vann hann uppsveitadeildina með yfirburðum og eins 150m skeið á skeiðleikum.
Eftir árið 2018 er Þórarinn þriðji á Worldranking listanum í fimmgangi og efstur allra Íslendinga. Einnig sýndi Þórarinn nokkur kynbótahross árið 2018 með góðum árangri.

 

Íþróttamenn HSÞ í hinum ýmsu greinum og umsagnir um þá.

Blak

Þórunn Harðardóttir – Völsungur

Þórunn hefur spilað blak með Völsungi í 11 ár. Hún er fyrirliði Meistaraflokks Völsungs sem spilar í Úrvalsdeild Íslandsmótsins þriðja árið í röð þar sem gengi liðsins hefur tekið jöfnum og öruggum framförum og er liðið nú í 3 sæti úrvaldeildarinnar þegar tímabilið 2018-19 er hálfnað. Þórunn er mjög öflugur leikmaður sem leggur sig ávallt 100% fram bæði á æfingum og í keppni. Hún er jákvæð, hjálpsöm og yfirveguð og er frábær fyrirmynd yngri leikmanna sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.

Boccia

Ásgrímur Sigurðsson – Völsungur

Ásgrímur er öflugur bocciaspilari, hann hefur æft og spilað með Völsungi til fjölda ára. Dugnaður, ástundun og áhugi með einsdæmum, en öll árin hefur hann mætt nánast á allar æfingar þó hann þurfi að sækja æfingar um 150 km leið.

Árið 2018 var Ásgrími gott „Bocciaár“ eins og mörg undanfarin ár og keppti hann á öllum mótum ársins, á Íslandsmótum bæði í einstaklings og liðakeppni, keppti hann í 1. deild, þá keppti hann á Hængsmótinu á Akureyri. Á flestum þessum mótum komst hann í úrslit þó ekki ynni hann til verðlauna. Ásgrímur var sveitinni sem vann Opna Húsavíkurmótið og titilinn „Húsavíkurmeistarar í boccia“ . Glæsilegur árangur hjá Ásgrími.

Bogfimi

Ásgeir Ingi Unnsteinsson – Umf. Efling

Ásgeir Ingi er tilnefndur sem bogfimimaður ársins 2018 og á hann það svo sannarlega skilið ef tekið er mið af árangri hans árið 2018, ungur og efnilegur maður hér á ferð. Ásgeir nýtti sér vel þær æfingar og aðstöðu sem buðust með Akureyringum árið 2018 og náði góðum árangri í kjölfarið. Ásgeir Ingi Unnsteinsson vann til gullverðlauna í sínum flokki (U21) á Íslandsmótunum bæði innan- og utanhúss, varð í 7. sæti á Aurora open og tók loks þátt á Norðurlandamóti ungmenna í haust þar sem hann hafnaði í 12. sæti.

Frjálsíþróttir

Halldór Tumi Ólason – Völsungur

Halldór Tumi eða Tumi eins og hann er oftast kallaður hefur æft frjálsar í þó nokkurn tíma. Hans aðal greinar eru 100m, 200m og langstökk. Hann sinnir æfingum af miklu kappi og hefur það verið að skila sér í miklum framförum á síðasta ári, þrátt fyrir að hafa glímt við smá meiðsli.

Helsti árangur Halldórs Tuma á árinu 2018 var eftirfarandi:
Á UFA móti í apríl varð Tumi í 3. sæti í langstökki og stökk 5,84 m. Á Gautaborgarleikunum í byrjun júlí var hann með persónulega bætingu í 200m og hljóp á 24,68 sek og vann sinn riðil. Á unglingalandsmótinu í ágúst varð hann í 8. sæti í 100m og hljóp á 12,48 sek og í 4.sæti í langstökki með stökk upp á 5,90 m. Á minningarmóti Ólivers á Akureyri varð hann í  1.sæti í langstökki með stökk upp á 6,33 m sem var persónuleg bæting en líka fjórða besta stökk á landinu í 16-17 ára flokki sem er mjög góður árangur. Hann keppti líka í 60m hlaupi þar sem hann var með persónulega bætingu og hljóp á 7,63 sek og lenti í 4. sæti. Síðasta mót ársins var svo Silfurleikar ÍR þar sem hann var með tvær persónulegar bætingar. Hann varð í 3. sæti í þrístökki með stökk upp á 12,30 m og í 6. sæti í 200m þar sem hann hljóp á 24,10 sek.

Glíma

Einar Eyþórsson – Mývetningur

Einar Eyþórsson er valinn glímumaður HSÞ 2018. Á árinu 2018 keppti Einar á eftirtöldum mótum með góðum árangri:

  • Bikarglíma Íslands: Bikarmeistari í -90 kg flokki, 3. sæti í opnum flokki
  • umferð í meistaramótaröðinni 2017-2018: 2. sæti í +90 kg, 3. sæti í opnum flokki
  • Meistaramótaröð 2017-2018 – úrslit: 2. sæti í +90 kg og 2. sæti í opnum flokki
  • Íslandsglíman: Grettisbeltið: 2. sæti
  • Fegurðarverðlaun á Íslandsglímunni: 1. sæti
  • Íslandsmeistaramótið í backhold: 6.-9. sæti í +90 kg og 3. Sæti í opnum flokki
  • Erlendar keppnir, Cowal hálandaleikarnir: 2. sætið í opnum flokki í Backhold og 2. sætið í  undir 15 steinum í Backhold.
Knattspyrna

Bjarki Baldvinsson – Völsungur

Meistaraflokkur karla náði góðum árangri í sumar er liðið hafnaði í fjórða sæti með 40 stig og voru í toppbaráttunni frá upphafi til enda. Bjarki Baldvinsson var fyrirliði liðsins og fór fyrir sínu liði með góðri spilamennsku. Lagði upp mörk fyrir félaga sína ásamt því að skora 5 sjálfur í 23 leikjum sínum í deild og bikarkeppni. Bjarki vakti ekki bara athygli hjá Völsungum og stuðningsfólki því hann var valinn í lið ársins á Fotbolti.net, þar sem fyrirliðar og þjálfarar sjá um kosningu.

Bjarki er leiðtogi innan og utan vallar og leggur mikið á sig til að bæta stöðugt leik sinn og lyfta þannig liði sínu á næsta stig. Góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn sem vilja bæta sig og ná lengra.

Skák

Tómas Veigar Sigurðarson – Skákfélagið Huginn

Tómas Veigar Sigurðarson er skákmaður HSÞ 2018. Tómas Veigar vann sigur á skákþingi félagsins í febrúar, eftir að hafa unnið undanriðilinn með öruggum hætti. Hann varð efstur félagsmenna á Skákþingi Norðlendinga 2018 og stóð sig afar vel á Íslandsmótinu 2018-19 fyrir hönd félagsins. Það fer því vel á því að Tómas sé skákmaður HSÞ, en þetta er annað árið í röð sem Tómas Veigar er valinn sem skákmaður HSÞ.

Skotíþróttir

Kristján R. Arnarson – Skotfélag Húsavíkur

Kristján tók þátt í nokkrum mótum á árinu með ágætum árangri. Hann er m.a. Húsavíkurmeistari í BR50 og náði einnig góðum árangri á mótum á Akureyri. Eftirfarandi er árangur hans yfir árið:

Húsavíkurmeistari í BR50.
1 sæti í BR50 móti í mars
3 sæti VFS mót í mars
8 sæti grúppumót
3 sæti 100 mtr VFS mót 16.5
4 sæti 200 mtr VFS mót 16.5
1 sæti Akureyri sumarmot BR50
5 sæti Akureyri hreindýramót, Best á skor á 200mtr.
6 sæti Akureyri breyttur rifflar páskamót
4 sæti Akureyri  óbreyttir rifflar páskamót
6 sæti Akureyri þrístöðumót veiðirifflar
1 sæti Akureyri  VFS mót

Hvatningarverðlaun hlaut Erla Rós Ólafsdóttir frá Þórshöfn.

Í umsögn um hana segir m.a. að síðustu þrjú ár hafi hún orðið Íslandsmeistari í spjótkasti á nánast öllum mótum sem hún hafi keppt á. Erla varð í þriðja sæti á Gautborgarleiknum í í Svíþjóð í spjótkasti. Hún varð unglingalandsmótsmeistari í spjótkasti þriðja árið í röð á árinu 2018. Erla er metnaðargjörn og ákveðin í að standa sig vel í þessari grein.

Jónas Egilsson form. HSÞ. Mynd: Sigurbjörn Ásmundsson
Þingfulltrúar í Skjólbrekku. Mynd: Sigurbjörn Ásmundsson
Brói og Viðar. Mynd: Sigurbjörn Ásmundsson