Árshátíð Stórutjarnaskóla

0
180

Árshátíð Stórutjarnaskóla fór fram föstudagskvöldið 11. mars s.l. Þar fluttu nemendur þrjú leikverk við góðar undirtektir áhorfenda. Elstu nemendur leikskóladeildar ásamt nemendum 1. til 3. bekkjar fluttu verkið Greppikló, sem þær Birna Davíðsdóttir og Hanna Berglind Jónsdóttir kennarar þeirra bjuggu til flutnings. Nanna Þórhallsdóttir kennari 4. og 5. bekkjar valdi svo og bjó til flutnings kafla úr Galdrakarlinum í Oz, sem nemendur 4. til 8. bekkjar léku. Loks samdi Jónas Reynir Helgason tölvu- og stærðfræðikennari leikritið Blindur er skjálaus maður, en 9. og 10. bekkur fluttu það.

Árshátíð Stórutjarnaskóla 2016 1
Verkið fjallar á gamansaman hátt um öfgafulla skjánotkun unglinga og baráttu fullorðins kennara við að kenna nemendum sínum að meta „hin gömlu og góðu“ gildi. Verkið talar þannig beint til hins tæknivædda nútímamanns og raunar líka til þess sem tregur er við að tileinka sér nútíma tækni og hugsun.

 

Talsverður söngur og tónlistarflutningur var í öllum verkunum og sáu þau Marika og Jaan Alavere um að þjálfa nemendur í þeirri listgrein. Æfingar og undirbúningur fyrir árshátíð er stórt samstarfsverkefni starfsfólks og nemenda Stórutjarnaskóla, þar sem allir leggja hönd á plóg. Allir nemendur skólans (nema yngstu nemendur leikskóladeildar) koma fram á leiksviði og þeir starfsmenn sem ekki sjá um leikstjórn og þjálfun leikara, sauma búninga, smíða leikmuni, setja upp svið eða undirbúa kaffiveislu, því kaffiveisla er ævinlega sjálfsagður liður á árshátíð.

Árshátíð Stórutjarnaskóla 2016 2

Þá er stiginn dans í lokin og að þessu sinni söng „starfsmannakórinn“ nokkur lög og Jaan spilaði um stund á harmóníkuna, áður en nemendur sjálfir tóku til sinna ráða með „nútíma“ danstónlist að eigin vali.

Eins og svo oft áður stóðu nemendur og starfsmenn sig með miklum sóma, en ekki síður gestirnir sem voru með allra fjölmennasta móti og virkilega góðir og jákvæðir gestir. Alls voru liðlega 250 manns á árshátíð Stórutjarnaskóla að þessu sinni.

Árshátíð Stórutjarnaskóla 2016 3
Mynd: Jónas Reynir

Árshátíð Stórutjarnaskóla 2016 4

Fleiri myndir sem Jónas Reynir Helgason tók má skoða hér.