Ályktun til Norðlenska vegna afurðaverðs fyrir lambakjöt haustið 2017

0
691

Stjórnir félaga sauðfjárbænda á Héraði og fjörðum, Suðurfjörðum, í Suður-Þingeyjasýslu og við Eyjafjörð skora, fyrir hönd sinna félagsmanna, á stjórn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur Norðlenska að hækka þegar í stað afurðaverð til sauðfjárbænda.

Fyrirtækið hefur sýnt metnað í vöruþróun og framsetningu, innleggjendur fyrirtækisins framleiða hágæðavöru, ekkert í birgðastöðu eins og hún blasti við við upphaf sláturtíðar réttlætti svo afgerandi lækkun afurðaverðs og er því óásættanlegt að rekstrargrundvöllur lambakjötsframleiðslu sé að fullu og öllu brostinn á svæðinu. Afleiðingarnar þarf vart að tíunda; stórfellt hrun í greininni, greiðslufall og fjöldagjaldþrot sauðfjárbúa með tilheyrandi byggðaröskun og harmleikjum fjölda fjölskyldna. Slíkt hrun hefði auk þess sterk neikvæð áhrif á aðra framleiðendur á innlendum kjötmarkaði og afurðafyrirtækin sjálf. Við skorum því á ykkur að standa með okkur sauðfjárbændum, sýna metnað og taka ábyrgð með því að hækka afurðaverð til sauðfjárbænda þegar í stað.

F.h. stjórnar Félags sauðfjárbænda á Héraði og fjörðum
Guðfinna Harpa Árnadóttir, Straumi

F.h. stjórnar Félags sauðfjárbænda á Suðurfjörðum
Guðný Harðardóttir, Gilsárstekk

F.h. stjórnar Félags sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu
Sæþór Gunnsteinsson, Presthvammi

F.h. stjórnar Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð
Ásta F. Flosadóttir, Höfða