Ályktanir aðalfundar Eyþings

0
82

Aðalfundur Eyþings var haldinn á Grenivík um helgina.  Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum

eyþing

Menningarsamningar og menningarstefna
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir ánægju sinni með núgildandi menningarsamninga og leggur áherslu á að við endurnýjun þeirra verði tryggt að fjármagn til
menningamála á starfssvæði Eyþings skerðist ekki. Fundurinn skorar á fulltrúa stjórnvalda að tryggja aukið fjármagn til stofn- og rekstarstyrkja á starfssvæði Eyþings.
Mikilvægt er að halda aðskildum stofn- og rekstarstyrkjum annars vegar og verkefnastyrkjum hins vegar. Leggja áherslu á að setja ramma innan sóknaráætlunar vegna menningarmála og útbúa gegnsæa reiknireglu.Fundurinn fagnar útkominni menningarstefnu og hvetur sveitarfélögin til að líta til hennar í störfum sínum.

Heilbrigðisþjónusta
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, minnir á að almenn og góð heilbrigðisþjónusta er mikilvægt byggða- og öryggismál. Skorað er á stjórnvöld að tryggja aðgengi að grunnþjónustu heilsugæslu og öldrunarþjónustu á öllu svæðinu. Þá brýnir fundurinn stjórnvöld til þess að vinna hugsanlegar breytingar á heilbrigðisþjónustu svæðisins í nánu samstarfi við íbúa, stofnanir og sveitarstjórnir á Eyþingssvæðinu.
Í ljósi þess að einungis ein fæðingadeild er á Eyþingssvæðinu leggur fundurinn til að tryggð verði aðstaða og stuðningur fyrir verðandi foreldra í námunda við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Sjúkrahúsið á Akureyri
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, ítrekar mikilvægi þess að standa vörð um og efla uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri.

Skólamál
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, leggur áherslu á að fyrirhuguð stytting framhaldsskólanáms verði unnin í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Það fjárhagslega svigrúm sem skapast verði nýtt til að bæta kjör og ná betri árangri í skólastarfi. Í grunnskólum verði jafnframt leitað leiða til að efla virðingu fyrir list- og verkgreinum. Bent er á mikilvægi þeirra sem lið í að draga úr brottfalli ungs fólks úr framhaldsskólum.

Sóknaráætlun landshlutans
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir ánægju með fyrstu reynslu af sóknaráætlun landshlutans þar sem markmiðið er að draga fram styrkleika og sóknarfæri hvers svæðis fyrir sig og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að tryggja fjármuni í verkefnið þannig að hægt sé að þróa þetta verklag enn frekar.

Innanlandsflug
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir yfir ánægju sinni með undirskriftasöfnunina Hjartað í Vatnsmýrinni. Fundurinn leggst eindregið gegn því að miðstöð innanlandsflugs verði flutt úr Vatnsmýrinni. Flutningur flugvallarins myndi draga verulega úr aðgengi íbúa landsbyggðanna að höfuðborginni og þar með heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi. Kostnaður við sjúkraflug mun aukast og öryggi sjúklinga minnka. Líkur eru á að flug myndi leggjast af til nokkurra staða. Flutningurinn myndi því hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðanna og auka verulega þann kostnað sem þeir bera.

Flugsamgöngur
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, ítrekar mikilvægi þess að stutt verði við flugsamgöngur til og frá Þórshöfn, Vopnafirði, Húsavík og Grímsey. Flugsamgöngur eru ein af lífæðum þessara samfélaga sem nauðsynlegt er að standa vörð um.

Álögur á innanlandsflug
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, hvetur stjórnvöld eindregið til að endurskoða álögur á innanlandsflug.

Jöfnun raforkukostnaðar
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, skorar á Alþingi að jafna að fullu raforkuverð til almennra notenda á landinu. Mikið vantar upp á að niðurgreiðslur skv. lögum nr. 98/2004 um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku standi undir markmiðum laganna.

Úrgangsmál
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir eftir stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum og að fundnar verði ásættanlegar lausnir til framtíðar.

Fráveitumál
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, telur mikilvægt að stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði tryggður.

Úrbætur vegna takmarkana í flutningsgetu á raforku
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir yfir áhyggjum af því að takmörkuð flutningsgeta á rafmagni innan svæðisins geti haft þau áhrif að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja á starfssvæði Eyþings. Flutningsgeta má ekki standa eðlilegri atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Þá leggur fundurinn þunga áherslu á að þriggja fasa rafmagn verði í boði á öllu svæðinu.

Almenningssamgöngur
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir yfir ánægju með aukna og bætta þjónustu í almenningssamgöngum. Verkefnið er mikilvægt til að jafna búsetuskilyrði á svæði Eyþings og tengir íbúa þess við önnur landsvæði. Fundurinn styður áherslur stjórnar vegna uppgjörs og reksturs á leiðum 56 og 57 í samræmi við forsendur Vegagerðarinnar við yfirtöku verkefnisins. Áætlanir um rekstur málaflokksins hafa ekki staðist þrátt fyrir fjölgun farþega. Aðalfundurinn lítur svo á að forsendubrestur hafi orðið frá yfirtöku verkefnisins; lækkun niðurgreiðslu olíugjalds,
einkaleyfi á umsömdum akstursleiðum ekki virt, framlag ríkisins ekki í samræmi við umfang samgöngukerfis milli þéttbýlisstaða á svæðinu og út af því. Ljóst er að Eyþing hefur borið verulega skarðan hlut frá borði en fundurinn samþykkir að verkefninu verði framhaldið svo fremi að einkaleyfi verði tryggt, framlög Vegagerðarinnar tekin til
endurskoðunar og breyting á endurgreiðslu olíugjalds verði bætt. Þá telur fundurinn brýnt að breyta gjaldskrá og afsláttarkjörum. Fundurinn leggur áherslu á að ýtrustu hagkvæmni verði gætt við rekstur verkefnisins. Jafnframt að rekstrarvanda þess verði ekki velt yfir á sveitarfélögin.Fundurinn fagnar aðkomu innanríkisráðherra og vegamálastjóra að úrlausn þess brýna vanda sem Eyþing stendur í við innleiðingu verkefnisins.

Stytting hringvegarins
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, fagnar því að framkvæmdir séu hafnar við Vaðlaheiðagöng. Fundurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að hringvegurinn verði styttur. Fyrir liggur að stytting hans stuðlar að auknu umferðaröryggi með fækkun slysa, er þjóðhagslega hagkvæm og að framkvæmdin þjónar því heildarhagsmunum íbúa og fyrirtækja í landinu.

Hálendisvegur
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, leggur til að teknar verði upp að nýju hugmyndir um hálendisvegi sem tengja saman landshluta norðan- og sunnanlands.

Fjarskiptamál
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, gerir kröfu um að tryggð verði aukin gæði nettenginga, sjónvarps- og útvarpssendinga á svæði Eyþings í samræmi við stefnumörkun fjarskiptaáætlunar og að farsímaþjónusta verði tryggð án undantekninga. Slakar nettengingar, lélegar sjónvarpssendingar og ófullnægjandi GSM samband stendur víða í vegi fyrir uppbyggingu fyrirtækja og veikir þar með búsetu.

Malarvegir
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, skorar á samgönguyfirvöld að veita mun meira fé til uppbyggingar og viðhalds héraðs- og tengivega heldur en verið hefur að undanförnu. Mjög litlu fé hefur verið varið til uppbyggingar og viðhalds malarvega og nú er svo komið að ýmsir þeirra eru orðnir mjög illa farnir og beinlínis hættulegir. Nefna má veginn milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, um Melrakkasléttu, í Bárðardal og í Hörgárdal.