Allt að 90% kal í túnum á bæjum í Aðaldal

0
120

María Svanþrúður Jónsdóttir ráðunautur hjá RML fór fyrir helgi til þess að meta kalskemmdir hjá bændum í Aðaldal. Á sumum bæjum er allt upp í 90% kal í túnum. Í spjalli við 641.is sagði hún stöðuna vera grafalvarlega og þá sérstaklega í ljósi þess að engar fyrningar eru til og bændur þurfa nauðsynlega á því að halda að ná miklum heyfeng í sumar. Í þessari viku ætlar hún að meta tún hjá bændum í öðrum sveitum í Þingeyjarsýslu. Ljóst er að þó nokkuð kal er í túnum á nokkrum bæjum í Reykjadal og Kinn en of snemmt sé að skera úr um það í öðrum sveitum þar sem sum tún eru nýkomin undan snjó.

Illa kalið tún
Illa kalið tún

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Forsvarsmenn Bændasamtakanna, Bjargráðasjóðs og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins fóru til fundar við fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sl. föstudag til þess að ræða stöðu mála vegna ótíðar á Norður- og Austurlandi síðastliðna mánuði. Ljóst er að bændur á stórum landssvæðum standa frammi fyrir miklum vanda vegna kals og kulda. Mjög er farið að ganga á heybirgðir á ýmsum bæjum og hafa menn flutt fóður um langan veg til að mæta skorti. Úthagi er víða grár og gróðurvana þó komið sé að mánaðamótum maí júní sem er óvenjulegt. Á fundinum voru lagðar fram upplýsingar sem varpa ljósi á ástandið sem er dæmalaust að mati ráðunauta. Bóndi.is segir frá þessu.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði eftir fundinn að staða bænda víða á Norður- og Austurlandi væri ekki öfundsverð. „Við vitum nú þegar að tjónið er umfangsmikið og það mun kosta mikla vinnu og fjármuni að laga þá ræktun sem hefur eyðilagst vegna ótíðarinnar.“ , hefur bóndi.is eftir Sindra.

Úthagi er víða grár og gróðurvana og engan veginn tímabært að setja búfé út á hann. Fyrningar hreinsast nú víðast upp og því geta menn ekki leyft sér að bíða lengi með ákvarðanir um framhaldið.

Þetta tún í Aðaldal var verið að vinna upp vegna kalskemmda, sl föstudag.
Þetta tún í Aðaldal var verið að vinna upp vegna kalskemmda, sl föstudag.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þó svo að nokkuð sé liðið á vorið er ekki útilokað að hægt sé endurrækta tún og ná ágætri uppskeru í sumarlok. Framvindan ræðst á næstu dögum eftir því hvernig veðrið þróast og hvort gróður taki við sér.