Af hverju á ég að kjósa Samstöðu ?

Frambjóðendur A-lista Samstöðu skrifa

0
700

Ágæti íbúi Þingeyjarsveitar, nú eru að koma kosningar enn á ný. Þá er gott að líta um öxl og skoða hvað tókst vel og hvað hefði betur mátt fara.

Það er óumdeilt að ekki hefur meira verið gert á einu kjörtímabili í okkar sveitarfélagi frá því að Þingeyjarsveit varð til. Þrátt fyrir að það fari fyrir brjóstið á einhverjum að við gumum að verkum okkar þá er það nú einu sinni svo að við í Samstöðu erum aftur að gefa kost á okkur til að sitja í sveitarstjórn og það því eðlilegt að við höldum verkum okkar frá liðnu kjörtímabili á lofti.

Við erum m.a. stolt af því að hafa:

 • lagt ljósleiðara í allt sveitarfélagið
 • endurskipulagt sorphirðu í sveitarfélaginu
 • sameinað Þingeyjarskóla á eina starfsstöð
 • byggt upp aðstöðu við Goðafoss
 • boðið uppá fríar skólamáltíðir og námsgögn

Allt þetta gátum við gert og meira til en samt skilað bestu rekstrarniðurstöðu í sögu Þingeyjarsveitar, um 100 milljónum í afgang og lækkað skuldahlutfall sveitarsjóðs úr 58% í 51%.

Sameining skólanna var sársaukafullt og erfitt verkefni. Verkefnið var þess eðlis að allir höfðu skoðanir, margt óvægið var sagt og skrifað. Þessi breyting leiddi af sér vanlíðan og sárindi í sveitarfélaginu og það var vont. Við gerðum það sem við töldum réttast með hag nemanda að leiðarljósi og það sem hagkvæmast væri fyrir sveitarfélagið allt.  Við erum stolt af skólunum okkar og þeim breytingum sem við gerðum. Nú rekum við sterkari, betri og hagkvæmari skóla.

Við erum að sjálfsögðu ekki hafin yfir gagnrýni og örugglega hefðum við getað gert margt betur, en gagnrýni þarf að vera réttmæt eða eiga hið minnsta einhverja stoð í raunveruleikanum.

Sumt sem menn leyfa sér að setja á prent er varla svaravert. Þó er vart hægt að sitja undir slíku án þess að segja nokkuð. Það er auðvitað grátbroslegt að halda því fram að það kosti ekki neitt, að gera ekki neitt, á kjörtímabili þar sem búið er að:

 • endurskipuleggja sorphirðu frá grunni
 • leggja 360 km af ljósleiðara
 • sameina starfsstöðvar Þingeyjarskóla
 • bjóða upp á fríar skólamáltíðir og námsgöng
 • leggja í gríðarmikla vinnu við að bæta aðstöðu við Goðafoss
 • vinna húsnæðisstefnu og auglýsa lóðir
 • hefja undirbúning fyrir nýja sókn í húsnæðismálum
 • auk fjölmargra annarra verkefna.

Að halda því fram að upplýsingaflæði sé ekkert þegar:

 • hver einasta fundargerð sveitarstjórnar er birt á vefnum og auk þess borin inn á hvert einasta heimili í sveitarfélaginu
 • sveitarsjórnarfundir eru opnir öllum auk þess sem boðið hefur verið reglulega uppá fundi með sveitarstjórnarfulltrúum, oddvita og sveitarstjóra.
 • aldrei hafa verið haldnir fleiri íbúafundir um hin margvíslegustu málefni en á liðnu kjörtímabili

Því hefur svo verið haldið fram að fasteignagjöld af Þeistareykjavirkjun séu 100 milljónir á ári. Hið rétta er að þau verða um 25 milljónir á ári en voru um 30 milljónir á árinu 2017 en þá voru vinnubúðirnar inni í tölunni. Með réttu ætti auðvitað ekki að elta ólar við svona tal en hafa skal það sem réttara reynist.

Við munum halda áfram að vinna vel að hag íbúa. Eitt stærsta mál næsta kjörtímabils verður að auka framboð íbúða í sveitarfélaginu til þess að við getum nýtt þá góðu innviði sem við eigum og höfum byggt upp. Við trúum því að okkar sveitarfélag hafi uppá margt að bjóða og sé góður búsetukostur fyrir fjölskyldur.

Fram er kominn annar listi og er það vel. Okkur sýnist í fljótu bragði að stefnumál þeirra séu keimlík þeim sem við höfðum áður sett fram. Við ætlum t.d. líkt og þau ekki að gefa út framkvæmdaleyfi að svo stöddu fyrir Svartárvirkjun, enda er sú framkvæmd í sínu lögformlega ferli. Við komum til með að taka ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis þegar umhverfismatið liggur fyrir og Skipulagsstofnun hefur gefið sitt álit. Ef einhver einstök framkvæmd gengur sinn lögformlega veg og allar til þess bærar fag stofnanir sjá henni ekkert til foráttu, þá eigum við ekki að standa í vegi fyrir henni. Við trúum á einstaklingsframtak og frelsi fólks til þess framkvæma á sínum jörðum það sem hugur þess stendur til, að því gefnu að fólk sæki um leyfi fyrir því sem er leyfisskylt og fari almennt eftir lögum og leikreglum samfélagsins.

Þú kjósandi góður gætir spurt: ,,Af hverju á ég að kjósa Samstöðu?“

Okkar svar er: ,,við höfum sannað að:

 • við látum verkin tala
 • við gerum það sem við segjum
 • við rekum ábyrga og góða fjármálastefnu
 • við vinnum vel fyrir þig“

Settu x-við A

Arnór, Margrét, Árni Pétur, Helga, Ásvaldur, Einar og Friðrika