Af dorgveiði á Kálfborgarárvatni og veitugerð Atla á Ingjaldsstöðum

0
2797

Kálfborgarárvatn, sem er staðsett sunnarlega á Fljótsheiðí milli Bárðardals og Engidals, þykir ágætt veiðvatn á sumrin og er líka vinsælt til dorgveiða að vetrarlagi.  Að sögn Jónasar Sigurðssonar á Lundarbrekku í Bárðardal er silungurinn alveg þokkalega vænn en í  Kálfborgarárvatni er aðallega Bleikja en eitthvað af Urriða er líka í vatninu.

Sigrún Hringsdóttir Lundarbrekku

Jónas hefur stundað dorgveiðar á Kálfborgarárvatni áratugum saman og segir að hin síðari ár hafi fiskurinn batnað mikið í vatninu en áður fyrr var fiskurinn smærri og lélegri.

Jónas fór ásamt vinum og fjölskyldu á dorg á Kálfboragárvatni í blíðviðrinu í gær og var það ekki hans fyrsta ferð á dorg þennan veturinn. Ekki veiddist mikið í gær en um sl. helgi var veiðin betri. Meðfylgjandi myndir tók Jónas í gær.

Árni Geirhjörtur Jónsson ættaður frá Fremstafelli

Veitugerð Atla á Ingjaldsstöðum

Hvítmaðkur er sú beita sem talin er hvað best við dorgveiðar en Árni Geirhjörtur Jónsson frá Fremstafelli skrifar greinargóða lýsingu á facebook hvernig lagt er í hvítmaðkaveitu, en lýsingu Árna má lesa hér fyrir neðan.

“Þegar þetta er skráð, er þessi fallegi dagur langt til eimaður til enda. Veðurspáin fyrir morgundaginn boðar gott færi til dorgveiði á Kálfborgarárvatni. Því hefur Petra kona mín soðið slátur og steikt hryggjarsneiðar í raspi ( múrhúð). Auðvitað smurt með silungi og kæfu. Allt heimafengið, og heitt kókó á brúsum. Jónas bróðir verður með í ferð. Stóri-Rauður ( gamli Raminn minn) er klár með kerru undir fjórhjól Jónasar, en því fylgir nokkurt öryggi ef færð gerist þungt fyrir gamla Ram.

Atli Sigurðsson bóndi á Ingjaldsstöðum

Fyrsti áfangi ferðarinnar verður gerður til Atla bónda Sigurðssonar á Ingjaldsstöðum. Hann leggur nefnilega til hvítmaðkinn sem beitt er á öngulinn. Atli er einn af fáum Íslendingum sem kann að leggja í ” veitu”. Að leggja til hvítmaðkaveitu er ævaforn iðja sem allir þeir sem veiddu silung undan ís þurftu með svo veiði teldist vís. Að leggja í veitu er gjört með svofelldum hætti: Að áliðnum ágústmánuði skal hefja veitugerð. Grafin er talsvert rúmgóð hola, metersdjúp og faðmur knappur að þvermáli á þeim stað þar sem snjólétt er jafnan á vetrum. Gjarnan í holti eigi alllangt frá bæjarhúsum. Gamalla manna mál greinir, að kvikni sjaldan fiskifluga eftir 27. ágúst, þaes. að fluga lifni ekki af maðki sem fluga hefur víað til í ágústmánuði hvers árs. Tímasetning veitugerðar er enda heppileg þeim sem hana leggja, því haustverkum til sveita fylgir nægt framboð af úrgangi frá heimaslátrun á sauðfé. Best þótti henta til veitugerðar ef fella þurfti hrút sakir elli eða ónáttúru, (gagnleysis til getnaðar). Falli hrútsins síðan fleygt í veituna (holuna) með ull og innihaldi, og lögð yfir gömul aflögð hurð frá lambhúsi, hóflega gisin og gengin af hespu.

Gæta skal þess að vargur, ( hrafn og tófa) nái ekki til veitunnar og spilli þar verðmætum. Þar sem fiskifluga er jafnan ekki lögst til vetrardvala sìðla ágústmánaðar, þá fljúga þær unnvörpum til veitunnar, sem farin er ögn að missa ferskleika hins fellda hrúts.( Ýldukeim andar frá veitunni). Í hundraðatali keppast fiskiflugurnar við að vía í hrútshræið sem þá hvítmatast allt af eggjum ( víum)flugunnar. Maðkur kviknar undra skjótt af víunum, enda nægt fæðuframboð í veitunni.Af víum einnar fiskiflugu geta lifnað um 500 maðkar. Til að flýta þroska maðkanna, þarf stöðugt að “fóðra” veituna með innmat eða öðrum matarleifum sem til falla á býlinu. Dafnar þá hvítmaðkurinn vel og vex mjög að þroska.

Líður svo allt til gormánaðar. Samkvæmt lögum náttúrunnar þá lifnar ekki fluga af þessum maðki þar sem lofthiti lækkar svo að maðkurinn nær ekki næsta þroskastigi sem er púpustig. Þegar tekur að frysta og sólargangur styttist, þá býr hvítmaðkurinn sig til vetrardvala. Saddur og sæll drífur hann sig út í jarðveg kring veitunni, en eins nálægt yfirborði jarðvegarins svo stutt verði til upprisunnar þegar vorar á ný við veituna og frost fer úr jörð. Þegar svo sumrar nægjanlega þá klekst flugan úr púpunni og hefur að nýju sína hringrás í náttúrunni með suði sínu og sælukennd sunnan við húsvegg.

Þegar svo dregur til dorgtíðar að áliðnum þorra, þá er gengið í holtið þar sem veitan var gjörð og höggnir harðfrosnir kögglar úr yfirborði jarðvegsins, þeir teknir til fjóstraðar og látnir klökkna svo að auðvelt sé að tína maðkinn í maðkaboxið. Hvítmaðkurinn gegnfrýs ekki í moldinni þar sem hann er búinn frostvarnarefni sem ljær honum líf yfir vetrardvölina í holtinu. Hvítmaðkinum er svo beitt á öngulinn þegar gerð hefur verið vök í ísinn sem liggur yfir fjallavötnum sem fisk geyma.

Eitt rómaðasta dorgarvatn landsins er Mývatn. Á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu var Mývatn nefnt matarkista Norðurlands, og sóttu menn langt að lífsbjörg þangað þegar sneyðast tók um vistir í búri húsfreyju. Misvel farnast fiskiflugum eftir sumartíð. Sú sögn geymist að árið 1918 hafi verið svo sumarlaust, að aðeins ein fiskifluga næði að vía í veitu það haust í Mývatnssveit, og þannig bjargað frá hungurvist fjölda fólks sem reiddi sig á nýmetið undan ísnum.

Það er ekki laust við spenning fyrir morgundegi okkar Petru og Jónasar bróður:

Einhver heit en hulin þrá,
hugann jafnan lokkar,
þegar frjósa fagurblá
fjallavötnin okkar.”

Ragnar Hallsson bóndi á Arndísarstöðum í Bárðardal
Lilja Björk Þuríðardóttir