Aðventutónleikar Sálubótar.

0
239

Mikið var um dýrðir í Þorgeirskirkju þegar Söngfélagið Sálubót hélt sína árlegu Aðventutónleika 6. des. s.l.

Sálubót er yfir fjörtíu manna blandaður kór, fólks úr Þingeyjarsýslu og frá Akureyri, stjórnandi er Jaan Alavere.

Söngfélagið Sálubót.

Auk Sálubótar kom fram Barnakór Stórutjarnaskóla, tveir einsöngvarar þau Jónína Björt Gunnarsdóttir og Jónas Reynir Helgason. Jaan spilaði undir á flygil kirkjunnar þegar það átti við, Marika Alavere lék á fiðlu, Pétur Ingólfsson á kontrabassa og hin 15 ára stórefnilega Katla María Kristjánsdóttir, nemandi Jaans lék á bassa.

Barnakór Stórutjarnaskóla.

Á efnisskránni voru alls 16 lög. Tónleikarnir hófust á lagi eftir Jaan, Jólaósk, textann á Hörður Þór Benónýsson Hömrum Reykjadal, Barnakórinn söng. Þá kom Sálubót á svið, kórinn söng m.a. tvö afar falleg lög eftir Jaan, við mjög fallega texta eftir Stein Jóhann Jónsson Lyngholti Bárðardal, lögin Gleði og þakkargjörð, og Kærleikskveðja.

Þá steig fram ung og stórgóð söngkona með mikið raddsvið, Jónína Björt, hún söng þrjú lög með Sálubót og þrjú einsöngslög m.a. Pie Jesu eftir Andrew Lloyd Webber og Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns.

Marika Alvere og Jónína Björt Gunnarsdóttir.

Jónas Reynir söng einsöng í lögunum Yfir fannhvíta jörð og Ég verð heima um jólin. Jónas Reynir er kennari við Stórutjarnaskóla, hefur ekki lært söng en hefur fengið fallega rödd í vöggugjöf, þegar Jaan kynnti Jónas Reyni sagði Jaan að þetta væri “Gullmoli Sálubótar”.

Kvartett: Jónas Reynir, Hávar, Pétur á kontrabassa og Jaan við flygilinn.

Karlakvartett, allt sterkir söngmenn í Sálubót, sungu skemmtilega útsettningu Jaans á laginu Amma engill, það voru þeir Hávar Sigtryggson, Pétur Ingólfsson, Jaan Alavere og Jónas Reynir Helgason.

Undir lok tónleikanna sameinuðust báðir kórarnir ásamt Jónínu Björt og undirleikurum og fluttu lagið Dansaðu vindur, sem heitir á frummálinu “Den vilda” og var evróvision lag svía árið1996.

Sálubót, Barnakór, Jónína Björt, Jaan og Katla María á bassa.

Lokalag tónlistarveislunnar var svo hið undurfagra lag, Ó helga nótt, lagið var samið 1847 af Adolphe Adams en ljóðið er eftir Sigurð Björnsson.

Eftir þennan fluttning ómaði húsið af fögnuði og gleði og mikið var klappað, þegar salurinn mátti velja uppklappslag var það Dansaðu vindur sem varð fyrir valinu. Stórkostlega fallega flutt.

Sálubót, Jónína Björt og Jónas Reynir.

Jónína Björt Gunnarsdóttir hóf píanónám 7 ára gömul við tónlistardeild Stórutjarnaskóla, en þegar Jaan Alavere kom til kennslu við skólann, beint frá Eistlandi, fór Jónína að læra á fiðlu og þar með átti fiðlan hug hennar næstu 7 árin, hún lærði bæði hjá Jaan og í Tónlistarskóla Akureyrar eftir að hún flutti þangað, þar hóf hún sitt söngnám 15 ára, til að byrja með var hún í hálfu námi, en fljótlega sótti söngurinn meira á og útskrifaðist hún með framhaldsstigspróf í klassískum söng vorið 2011. Þaðan lá leiðin beint í Listaháskóla Íslands, þar útskrifaðist Jónína Björt með B.Mus gráðu í klassískum söng. Haustið 2014 flutti hún til New York og dvaldi þar í 2 ár við nám í New York Film Academy í söngleikjadeild. Þar læri hún söng, dans og leiklist, söngurinn var minna klassískur þar, en meira popp, rokk og söngleikjatónlist. Jónína hefur mjög gaman af að blanda þessu öllu saman.

Að loknum tónleikum buðu kórfélagar uppá glæsilegt smáköku hlaðborð, kaffi og safa. Þá gátu gestir og söngfuglarnir átt gott spjall saman, áður en haldið var heim, með gleði í hjarta.

Mig langar að vitna í orð séra Bolla Péturs Bollasonar, sem mér finnst góð lokaorð, hann skrifaði eftir tónleikana: “Eyrnakonfekt, smákökur og störnubjartur himinn. Barnakór með englaröddum, einsöngur frá himnahöll og hljóðfæraleikur ljóss og lífs. Öllu þessu stýrði Jaan af fagmennsku og frískandi skemmtilegheitum, að lófaklappi ætlaði seint að linna í lokin”.