“Aðrir starfsmenn standa þér framar”

0
349

Sl. þriðjudag voru fjórir kennarar við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla boðaðir á skrifstofu Þingeyjarsveitar í Kjarna á Laugum þar sem þeim var afhent bréf, undirritað af sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Bréfið bar yfirskriftina “Tilkynning um andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993″. Umrædd bréf ullu miklum titringi í síðustu viku meðal þeirra sem fengu þau og á meðal almennings í Þingeyjarsveit eftir að efni þeirra tók að spyrjast út. Í bréfunum eru settar fram dylgjur um hvers vegna viðkomandi kennarar séu ekki nógu góðir kennarar til að gegna áfram störfum við Þingeyjarskóla á komandi skólaári. Bréfin eru í raun óformleg uppsagnarbréf, en kennurunum er þó gefin kostur á því að andmæla innihaldinu.

Kennara-bréf apríl 2015
Eintak af bréfinu. (smella á til að stækka)

 

Orðalag eins og “að aðrir starfsmenn standi þér framar” vekja sérstaka athygli í bréfunum og svo eru settar fram órökstuddar dylgjur um kennarana í bréfunum, sem voru þess eðlis að rýra mannorð viðkomandi.

Niðurlag bréfsins er á þessa leið: Áréttað er að fyrirhuguð málsmeðferð getur leitt til þess að þér verði sagt upp störfum.

641.is komst yfir eitt eintak af bréfi sem einn af kennurnum fékk, sem sjá má hér til hliðar.

Búið er að afmá öll persónuleg atriði og einnig er búið að afmá umræddar dylgjur sem viðkomandi kennari er ásakaður um.

Efni bréfanna er á þessa leið:

 

Tilkynning um andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þingeyjarsveit hefur til meðferðar mál er varðar fækkun starfsmanna við Þingeyjarskóla í tengslum við sameiningu starfstöðva á Laugum og Hafralæk. Fram hefur farið samanburður á hæfi allra starfsmanna skólans. Eftir yfirferð gagna og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja, bendir vinna sem farið hefur fram á vegum sveitarstjórnar vegna skipulagsbreytinga til þess að aðrir starfsmenn standi þér framar þegar kemur að því að ákveða hverjir muni áfram gegna störfum við Þingeyjarskóla.

Af þessu tilefni og með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er þér gefinn frestur til………. til að koma að andmælum og sjónarmiðum þínum óskir þú þess. Gert er ráð fyrir að þú komir til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Kjarna Laugum til þess að ræða málið.

Þér er heimilt að hafa trúnaðarmann frá stéttarfélagi þínu, lögmann eða einhvern annan aðila með þér þeim fundi. Þá er þér heimilt að leggja fram skirflegar athugasemdir, kjósir þú það. Að þeim fundi loknum verður tekin ákvörðun um hvort þér verði sagt upp stöfum enda gefi framvinda málsins ekki tilefni til frekari málsmeðferðar.

Áréttað er að fyrirhuguð málsmeðferð getur leitt til þess að þér verði sagt upp störfum.

Kennarafundur var haldinn sl. miðvikudag í Hafralækjarskóla, daginn eftir að bréfin voru afhent. Þar var innihald bréfanna rætt og ákveðið að óska eftir fundi með nýjum skólastjóra Þingeyjarskóla um efni þeirra eftir helgi.

Sárir og reiðir

Kennararnir sem fengu bréfin eru mjög reiðir og sárir yfir orðalaginu og þykir mjög að sér vegið. Þeir velta því fyrir sér hvaða framtíð þeir eigi sem kennarar, fylgi þessi órökstudda umsögn um þá í formlegu uppsagnarbréfi sem virðist vera óumflýjanlegt að þeir fái fljótlega. Einn kennaranna sagði í spjalli við 641.is í gær, að hann ætti ekki von á því að nokkur þeirra gæti fengið kennarastöðu neinsstaðar með þessar ásakanir í farteskinu. Eftir því sem 641.is kemst næst munu allir kennararnir fjórir nýta sér andmælaréttinn til þess að mótmæla þessu bréfi harðlega og munu þeir fara fram á afhendingu allra þeirra gagna sem þessar ásakanir byggja á.

Engum sagt upp á Hafralæk ?

Samkvæmt óstaðfestum heimildum 641.is fékk enginn kennari við Hafralækjarskóladeild Þingeyjarskóla svona bréf og því stefnir í það að allir kennarar sem starfa við Hafralækjarskóladeild Þingeyjarskóla haldi vinnuninni áfram, sem hafa óskað eftir því. Einungis einn kennari sem er í fullu starfi við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla, heldur vinnuninni áfram samkvæmt heimildum 641.is.

Vafasamt orðalag

641.is bar þetta bréf undir lögfróða aðila og voru þeir sammála um að orðalagið í bréfunum væri í besta falli vafasamt, hafi kennararnir ekki verið áminntir í starfi áður og vel rökstuddar sannanir þurfa að vera til staðar til að setja svona fram í bréfi til einstakra starfsmanna. Einnig gæti það verið brot á meðalhófsreglu að segja bara upp kennurum á annari starfsstöðinni en ekki hinni.

Skólastjóri og sveitarstjóri tjá sig ekki um málið

641.is spurði Jóhann Rúnar Pálsson skólastjóra Þingeyjarskóla að því í gær, hvort að það væri rétt að aðeins kennarar við Litlulaugaskóladeild Þingeyjarskóla hefðu fengið svona bréf og einnig hvort að orðalagið sem kemur fram í bréfunum muni fylgja inn í uppsagnarbréfin sem þessir kennarar munu líklega fá í kjölfarið. Jóhann sagðist ekki vilja tjá sig um þetta þar sem málinu væri ólokið og hann gat ekki tjáð sig um starfsmannamál er snúa að einstaklingum við Þingeyjarskóla.

“Ég mun ekki tjá mig um mál einstakra starfsmanna og allra síst mála sem eru í vinnslu”, sagði Dagjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar þegar 641.is bar orðalag bréfanna undir hana í dag.

Fundur í dag

Samkvæmt heimildum 641.is hafa viðkomandi kennarar verið boðaðir til fundar í Kjarna á Laugum í dag til að ræða innhald bréfanna. Þar ætla þeir að koma að andmælum við umræddum bréfum, eins og áður segir.