Aðfangadagspistill frá sveitarstjóra Skútustaðahrepps

0
152

Síðustu tveir mánuðir hafa verið viðburðaríkir. Fyrir Eyjapeyja sem alinn er upp í sjávarútvegsplássi er virkilega gaman og líka áskorun að kynnast bænda og ferðaþjónustusamfélagi sem iðar af lífi. Umfram allt hef ég kynnst úrvals fólki og hér eru mörg spennandi verkefni að takast á við og auðvitað hef ég heillast af náttúrufegurðinni í Mývatnssveit. Í grein í Skinfaxa frá árinu 1912 sem merkt er J.J. þar sem væntanlega er átt við Jónas Jónasson frá Hriflu, segir frá upplifun höfundar þegar hann sá Mývatnssveit í fyrsta sinn og er það ekki fjarri minni eigin upplifun.

„En allt í einu nemur maður staðar á hæsta ásnum og af honum sést yfir alla Mývatnssveit í einu andartaki. Er þetta málverk? Hvar er í náttúrunnar ríki þvílík fegurð, svo samandregin, svo samræmisfull? Vatnið geisistórt; slétt og skínandi eins og skuggsjá vefur það um sig þúsund eyjar og hólma, fjölbreytilegar að myndun og útliti… Líklega er það vegna þessara súlulegu fjalla, að mér dettur alltaf í hug stórfenglegt leikhús, er ég hugsa um Mývatnssveit. Og þó er það synd að bera spilaborgir menningarinnar saman við furðuverk náttúrunnar.“

 

 

Mikilvægi starfsfólks
Ég átti afar ánægjulegan fund með starfsfólki leikskóla og grunnskóla í síðustu viku þar sem við áttum samtal um skólastarfið og ýmislegt fleira. Hjá Skútustaðahreppi vinnur á þriðja tug starfsfólks í mismunandi stöðugildum. Við byggjum starfsemi okkar á því að hafa gott starfsfólk og fer ekki á milli mála að mannauður Skútustaðahrepps er mikill. Hjá okkur starfar fólk með mikla reynslu og flestir starfa í þjónustu við yngri kynslóðina í gegnum leikskóla, grunnskóla, íþróttamiðstöðina o.s.frv. Mikilvægt er í því starfsumhverfi sem við búum í dag þar sem skortur eru á vinnuafli að hlúa vel að starfsfólkinu okkar. Þess vegna er farin af stað undirbúningsvinna til að mæta því og verður hún kynnt fljótlega á næsta ári. Skútustaðahreppur nær ekki að keppa við laun á almennum vinnumarkaði en ýmsar aðrar leiðir eru færar til þess að þess að gera starfsumhverfið eftirsóknaverðara. Mikilvægt er í þeim efnum er að við séum framsækin.

Nóg um að vera
Aðeins ein vika var á milli sveitastjórnarfunda að þessu sinni þar sem seinni fundi mánaðarins var flýtt vegna jólanna. Engu að síður voru fjölmörg mál á dagskrá og þrjú þeirra tengjast enn og aftur kærumálum vegna framkvæmda. En við tökum á þessum nýju verkefnum af æðruleysi og fagmennsku og beinum þeim í réttan farveg. Eins og flestum er eflaust kunnugt um er erfitt að fá iðnaðarmenn í verkefni í Mývatnssveit því uppbygging er víða. Þegar okkar tókst loks að klófesta nokkra þeirra í haust hafa þeir unnið að viðhalds- og frágangsverkefnum á eignum sveitarfélagsins, t.d. á nýja leikskólanum, einbýlishúsum, hreppsskrifstofunum o.fl. Einnig hafa þeir verið að breyta lagnakjallara í sundlauginni í stærrarými fyrir líkamsræktina í íþróttamiðstöðinni sem vonandi verður tilbúið seinni hluta janúarmánaðar. Þá er verið að kaupa ný líkamsræktartæki og hafa Jarðböðin, Mývetningur o.fl. styrkt þau kaup á myndarlegan hátt og vil ég koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra.

Óhætt er að segja að milljarða framkvæmdir séu framundan í Mývatnssveit á næstu misserum. Þar ber hæst stækkun Jarðbaðanna í Bjarnarflagi en Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt hjá Basalt artkitektum og Guðmundur Þór Birgisson framkvæmdastjóri Jarðbaðanna kynntu þær á fundi skipulagsnefndar fyrir skömmu. Jafnframt fékk ég ásamt oddvitanum Yngva Ragnari kynningu hjá Guðmundi. Óhætt er að segja að þetta séu gríðarlega metnaðarfullar framkvæmdir sem framundan eru.

Gatnagerðaframkvæmdir standa yfir við Klappahraun og fyrstu húsin þar munu væntanlega byrja að rísa í febrúar. Þá er verið að reisa stórt húsnæði við Múlaveg og frístundabyggðin í Birkilandi hefur verið að byggjast upp.

Ég vil nota tækifærið og senda starfsfólki Skútustaðahrepps og öðrum Mývetningum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökkum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Að endingu vil ég vekja athygli á því að umsóknarfrestur vegna starfs skrifstofufulltrúa hjá Skútustaðahreppi hefur verið framlengdur til og með 11. janúar n.k. Sjá nánar á www.myv.is.

Bestu kveðjur
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri

Pistill númer 3