Aðeins um Grímsstaði og Kárhól – Eru vanskil á ársreikningum smitandi?

0
239

Góður maður rifjaði upp fyrir mér að um þessar mundir er ár frá því að ég skrifaði þrjár greinar í Skarp um málefni Grímsstaða á Fjöllum. Lítið hefur frést af Núbó og áformum hans á liðnum mánuðum, en í staðinn skaut upp systurverkefni Grímsstaðaverkefnisins, á Kárhóli í Þingeyjarsveit. Það verkefni hefur að hluta sömu íslensku gerendur í aðalhlutverki og Grímsstaðaverkefnið, Halldór Jóhannsson og atvinnuþróunarfélögin. Þessir aðilar ásamt hlutafélögum sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar leppa kaup aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru atvinnuþróunarfélögin orðin einskonar lepptæki í þeim gjörning. Ef það er verkefni atvinnuþróunarfélaganna að finna leið framhjá íslenskum lögum, þá ber að endurskoða rekstur þeirra og tilvist.

Guðmundur Vilhjálmsson
Guðmundur Vilhjálmsson.

Undirritaður hefur allnokkuð lesið um starfsaðferðir Kínverja og þess sem er kallað; hinn þöguli her Kína. Hinn þöguli her Kína (China´s silent army) eru fjárfestingasveitir Kína, sem fara um lönd í þeim eina tilgangi að ná tangarhaldi á löndum, auðlindum og áhrifasvæðum s.s. samgöngumannvirkjum. Fjárfestarnir eru bæði einkaaðilar og opinberir. Meginrök þeirra sem styðja Kárhólsverkefnið, er einmitt að það sé svo öruggt af því að það er Kínverska ríkið sem er á bak við kaupin.

 

Kaupin á Kárhól, eru nánast eftir bókinni sem blaðamennirnir Juan Pablo Cardenal og Heriberto Araújo skrifuðu um í bókinni China´s Silent Army. Yfirverð er boðið í illseljanlegar eignir til að komast inn á ný svæði. Fróðir menn segja mér að 77 milljónir (auk þriggja í vanskilakostnað) hafi verið langt yfir eðlilegu verði Kárhóls. Er talað um að jörðin hafi að minnsta kosti selst á 60% yfirverði. Síðan gerist það að þegar ,,góða“ tilboðið er komið í viðkomandi eign, þá halda ekki varnirnar sem eiga að halda svo sem lög um erlenda fjárfestingu. Þegar svona yfirverð er boðið og hnökrar verða á ferlinu, þá virðist sem peningaglýjan geti leitt til ótrúlegustu atburðarása, eins og þeim dæmalausa gjörningi að atvinnuþróunarfélögin og Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ganga inn í kaup jarðar á yfirverði í gegn um félagið Aurora Observatory ses. Hvað eiga félög almennings að standa í svona fjárfestingum?

Ekki veit ég hvað þarf stórt landrými í norðurljósarannsóknir, en það virtist ekki þurfa mikið land hér um árið þegar Japanir rannsökuðu norðuljósin á Mánárbakka. Aðeins þurfti um hálfan hektara, en kannski eru menn ekki að rannsaka sömu hluti, hvað veit ég. Hinsvegar veit ég það að ekki er þörf á allri jörðinni til rannsókna.
Verra þykir mér að stjórnsýsla Þingeyjarsveitar er mjög slæm í málinu. Málið er rekið í gegn um einkahlutafélagið; Atvinnueflingu Þingeyjarsveitar, málið ekki tekið fyrir í sveitarstjórn og þar með er hvorki minnihluta sveitarstjórnar eða íbúum gert kleyft að gera athugasemdir við málið.

Í greinarskrifum mínum fyrir ári síðan, fór ég svolítið yfir málefni fyrirtækja Halldórs Jóhannssonar, ársreikningaskil meðal annars. Ekkert hefur breyst í þeim efnum á því ári sem er liðið, nema að nú hafa bæst við vanskil ársreikninga 2012. Einnig fór ég svolítið yfir fyrirtækið Arctic Portal sem er einkahlutafélag í eigu Fanneyjar Ingvadóttur konu Halldórs. Arctic Portal eða Norðurslóðagáttin ehf. hét áður Jóhann Ágústsson ehf. og var heildverslun í eigu föður Halldórs, stofnað 1972. Norðurslóðagáttin ehf. hefur ekki skilað síðustu þremur ársreikningum og er því í vanskilum með ársreikninga frá því að fyrirtækið komst í eigu Fanneyjar Ingvadóttur. Hinsvegar var skilað inn fyrir árið 2010 og hef ég þann reikning undir höndum. Síðar var sá reikningur felldur út af ársreikningaskrá af ástæðum sem ég get ekki skýrt. Samkvæmt þeim reikning var fyrirtækið í 100% eigu Fanneyjar Ingvadóttur og var hún eini stjórnarmaðurinn og hafa ekki komið tilkynningar um stjórnarbreytingar síðan í Lögbirtingablaðinu. Þrátt fyrir þetta eru 5 aðrir stjórnarmenn tilgreindir á heimasíðu Artic Portal. Þetta er ekki eina varðandi Arctic Portal sem er misvísandi við fyrirtækjaskrá, því ég á ennþá skjáskot af heimasíðu fyrirtækisins þar sem því var haldið fram að fyrirtækið væri sjálfseignarstofnun.

Það má undrum sæta hvað Halldór Jóhannsson á greiðan aðgang að sveitarstjórnarmönnum í þingeyjarsýslum og hvað þeir eru ginkeyptir fyrir hugmyndum hans. Væri ekki nær fyrir menn að athuga bakgrunn mannsins, rekstarsögu, kennitöluflakk og þá staðreynd að hann hefur ekki skilað ársreiknigi fyrir rekstur sinn í gegn um þrjár kennitölur frá árinu 2004. Og vanskil á ársreikningum virðast vera bráðsmitandi. Ég hef á liðnum vikum verið að skoða ýmis gögn og leita eftir öðrum, þar á meðal ársreikningi GáF ehf. Sá er ekki til fyrir árið 2012, þó fyrirtækið hafi óyggjandi skilaskildu á ársreikning, þar sem fyrirtækið er einkahlutafélag sem hefur kostnað, þó það hafi ekki tekjur. Forsvarsmaður fyrirtækisins, Bergur Elías Ágústsson, stjórnarformaður og eini prókúruhafi hefur ekki unnið vinnuna sína hvað þetta varðar. Sem íbúi í sveitarfélaginu Norðurþingi, þá óska ég eftir að hann bæti úr þessu hið allra fyrsta. Kostnaður vegna Grímsstaðamálsins á að vera opinber, þar sem hann er greiddur af sveitarfélögunum sem við búum í.

Skoðun mín er sú, að Grímsstaðamálið á eftir að koma upp á nýjan leik í einhverri mynd á næstu misserum. Þó held ég að reynt verði að hafa hljótt um málið fram að sveitarstjórnarkosningum…

Virðingarfyllst.  Guðmundur Vilhjálmsson Lyngbrekku 13 Húsavík