Aðalfundur Fjöreggs – Skora á umhverfisráðherra

-að semja við sveitarstjórn Skútustaðahrepps um framkvæmdir og fjármögnun fráveitumála

0
305

Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, skorar á Björt Ólafsdóttur, umhverfisráðherra, að semja við sveitarstjórn Skútustaðahrepps um framkvæmdir og fjármögnun fráveitumála í sveitinni. Jafnframt er brýnt að tryggja fé og aðstöðu til að bæta vöktun og efla rannsóknir á verndarsvæðinu.

Markmið Fjöreggs eru verndun náttúru og umhverfis Mývatnssveitar, sjálfbær umgengni sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja. Félagið vinnur að markmiðum sínum með fræðslu, hvatningu og umræðu um náttúruverndarmál. Fyrsta málþing Fjöreggs var um fráveitumál en einnig hafa verið haldin málþing um jarðvarmavirkjanir og sambýli ferðamanna og íbúa í sveitinni, auk fjölda fræðslufunda um lífríkið og ástand þess, aðkomu almennings að skipulagsmálum og fleiri mál tengd markmiðum félagsins.

Ályktun aðalfundar Fjöreggs, félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, sem haldinn var í Skjólbrekku 6. apríl 2017.

Aðalfundur Fjöreggs, félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, lýsir áhyggjum af ástandi lífríkis Mývatns og Laxár. Samstarfshópur á vegum umhverfisráðherra kortlagði ástandið í júní í fyrra og gerði grein fyrir mögulegum aðgerðum til úrbóta. Það var niðurstaða hópsins að rétt væri að ríkisvaldið og Skútustaðahreppur ynnu saman að umbótum í fráveitumálum og að öðrum aðgerðum til að draga úr innstreymi næringarefna í Mývatn. Verkfræðistofa hefur lagt drög að úrbótaáætlun og metið kostnað gróflega í skýrslunni „Fráveitumál við Mývatn – úttekt á núverandi stöðu og tillögur að úrbótum í ljósi ofauðgunar“. Rökrétt næsta skref væri að umhverfisráðherra og sveitarfélagið gerðu rammasamning um framkvæmdir og fjármögnun þeirra. Sveitarstjóri segir að mikill tími og orka hafi farið í fundi með ráðamönnum til að fá ríkið að borðinu en án sýnilegs árangurs. Allir hafi sýnt skilning en enginn fengist til að taka af skarið. Fjöregg skorar hér með á Björt Ólafsdóttur, umhverfisráðherra, að ganga í verkið.
Í ljósi þess að lífríki Mývatns og Laxár er síkvikt og hefur síðustu áratugi verið afar sveiflukennt er nauðsynlegt að samhliða framkvæmdum við fráveitur verði vöktun bætt, rannsóknir efldar og upplýsingagjöf aukin. Gera þarf yfirlit yfir flæði næringarefna í vatnið fyrir og eftir fráveituframkvæmdir og fylgjast með breytingum á vexti svifþörunga og gróðurs á botni. Nauðsynlegt er að kortleggja næringarefni í lindum og borholum sem víðast við vatnið ásamt því að mæla styrk þeirra í vatnsbolnum reglulega, einkum í Ytri-Flóa. Þá þarf að rannsaka blábakteríurnar, sem valda leirlosinu og kanna getu þeirra til að framleiða eiturefni.