Að liðnum hverjum vetri kemur langþráð vor

0
72

Ég er stolt af því að vera Þingeyingur. Hér hef ég búið í á fjórða áratug, stofnað fjölskyldu, búið okkur heimili og alið upp börnin mín þrjú. Ég hef upplifað blómaskeið og erfiða tíma í okkar litla samfélagi.

Valgerður Gunnarsdóttir
Valgerður Gunnarsdóttir

Ég kom að því sem bæjarfulltrúi á Húsavík að stofna Framhaldsskólann á Húsavík. Það var spennandi verkefni og mikil lyftistöng fyrir samfélag okkar. Síðustu fjórtán ár hefur mér verið falið að stýra og standa vörð um Framhaldsskólann á Laugum. Báðir þessir skólar skipta miklu fyrir samfélagið og gefa unga fólkinu okkar kost á að búa og mennta sig heima. Ég mun áfram standa vörð um þessa skóla og berjast fyrir þá. Ég get ekki hugsað til enda þá hugsun að þessar menntastofnanir væru ekki í Þingeyjarsýslum og alveg ljóst að það væri um margt fátæklegra mannlífið hér, ef þeirra nyti ekki við.

 

Sem yfirmaður í ríkisstofnun þekki ég vel hvernig sótt er að störfum og stofnunum hér á okkar svæði. Stór hluti af minni vinnu sem skólameistari við Framhaldsskólann á Laugum hefur verið að tryggja að sá skóli fái að lifa. Skólinn á Laugum er stóriðja þess samfélags. Þetta þekkja stjórnendur annarra stofnana í samfélagi okkar líka. Við þurfum að heyja baráttu fyrir hverju starfi og tilvistar þeirrar þjónustu sem þeir veita. Þetta þekkja best þeir sem nýta sér þjónustu þessara stofnanna og nægir þar að nefna Heilbriðgisstofnun Þingeyinga.

Veljum okkar verkefni vel.

Þingeyjarsýslur hafa undanfarna áratugi verið í vörn. Ég trúi því að ef við höldum rétt á spilunum getum við snúið þeirri vörn í sókn og séð fram á mikið hagvaxtarskeið í Þingeyjarsýslum á næstu árum og áratugum. Hvert sem litið er má finna tækifæri. Við erum rík af orku, auðlindum, mannauði og náttúrufegurð. Við þurfum hins vegar að velja okkar verkefni vel og standa saman í því að byggja farsæla framtíð. Það höfum við Þingeyingar áður gert og munum gera að nýju.
Ég býð mig fram til að sitja sem talsmaður okkar Þingeyinga á Alþingi. Ég alltaf borið mikla virðingu fyrir þjóðþingi okkar og trúi því að þjóðin muni gera það á ný. Ég vil hafa sterka rödd til að tala okkar máli þar inni. Til þess þarf ég góðan stuðning og góða kosningu. Ég er reiðubúin að vinna af heilum hug fyrir okkur, Þingeyingar.
Ég bið þig að standa með mér í kosningunum á laugardaginn.

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari
skipar 2. sæti á D-lista Sjálfstæðisflokksins