Á þriðja þúsund fjár á lífi

0
86

Sigurður Brynjólfsson, yfirlögregluþjónn á Húsavík,segir að talið sé að búið sé að finna á þriðja þúsund fjár á lífi á Þeistareykjasvæðinu. Búið er að fara með talsvert á heyrúllum upp á heiðina til að gefa þeim. Umfangsmikil leit heldur áfram í dag.

Leitað að kindunum í Reykjadal.
Mynd: Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

„Leitin gengur vel, en þetta er mjög seinlegt verk og á eftir að taka talsverðan tíma að koma fénu niður til byggða,“ segir Sigurður. Hann segir að nokkur hundruð manns taki þátt í leitinni. Fólk hafi komið víða af landinu til hjálpar. 66 björgunarsveitarmenn hafi komið af höfuðborgarsvæðinu með mikið af tækjum, vélsleða, fjórhjól og snjóbíla. Fólk allt frá Húnavatnssýlum að Djúpavogi aðstoði við leitina.

„Stærstur hluti liðsins verður áfram á Þeistareykjasvæðinu. Við munum í dag senda einn flokk til aðstoðar bændum í Kelduhverfi. Í Fnjóskadal milli Illugastaða og Hróarsstaða, verða líklega fjórir hópar að störfum. Þetta er utan í Vaðlaheiði en óttast er að þar sé talsvert af fé fast í fönn. Leitað verður í Flateyjardal, Skarðsdal og Garðsdal, en þetta eru dalir út af Flateyrardalshálendinu,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að ekki sé búið að telja hversu margt fé er búið að finna, en menn giski á að búið að sé að finna 2000-3000 kindur á Þeystareykjasvæðinu. Féð er í aðhaldi, en það verður flutt niður í byggð á næstu dögum. Öll áhersla sé lögð á að finna fé sem fennt hefur á kaf. Hann segir að búið sé að fara með heyrúllur upp á Þeistareykjasvæðið, en þar er algerlega haglaust.

Sigurður segir að þetta verði verkefni á vegum almannavarna a.m.k. í dag, en staðan verði síðan metin að nýju í kvöld.

Gott veður er á leitarsvæðinu. Það rigndi í nótt, en ekki er reiknað með mikilli úrkomu í dag.  mbl.is