8 milljóna króna stuðningur til frekari björgunaraðgerða

0
81

Von á 80 björgunarsveitarmönnum.

Að tillögu forsætisráðherra samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í dag að verja 8 milljónum króna til björgunarstarfa í kjölfar óveðursins á Norðausturlandi á dögunum. Gert er ráð fyrir að frekari leit og björgun sauðfjár verði skipulögð af hálfu björgunarsveita hið fyrsta.

Bílastæðið við Stórutjarnaskóla um miðjan september sl.
Mynd: Heiða Kjartans.

Í minnisblaði frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er áætlað að enn vanti um 5.500 kindur og lömb. Frekari leit og björgunaraðgerðum fylgir talsverður kostnaður, en verði aðgerðirnar árangursríkar er ljóst að verulega gæti dregið úr kostnaði vegna bóta. Í minnisblaðinu segir jafnframt: „Ekki er síður mikilvægt að slíkt átak sendir skýr skilaboð um samstöðu samfélagsins við þá sem eiga um sár að binda eftir hamfarirnar og er um leið hluti af ferli við úrvinnslu áfallsins.“ (forsaetisraduneiti.is)

Von á um 80 björgunarsveitarmönnum

Von er á u.þ.b. 80 björgunarsveitarmönnum í Stórutjarnaskóla í   kvöld.  Þar munu þeir gista tvær nætur og fá morgunverð og kvöldverð, en á daginn verða þeir við fjárleitir á Þeistareykjum, Fnjóskadal, Flateyjardal og víðar.  Svipaður fjöldi dvaldi í Stórutjarnaskóla um daginn í kjölfar óveðursins og var þá almenn ánægja allra með þá góðu aðstöðu sem Stórutjarnaskóli býður upp á.

Það eru Almannavarnir ríkisins sem skipuleggja björgunarstörfin að þessu sinni. (storutjarnaskóli.is)