7.300 kílómetrar

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar

0
342

Þjóð sem býr í jafn dreifbýlu landi og Ísland er, verður að nota hærra hlutfall þjóðarframleiðslu í samgöngur en gert hefur verið síðustu 10 árin. Ef það er ekki gert, þá hallar hratt undan fæti varðandi ástand vegakerfisins, eins og íbúar í Norðausturkjördæmi hafa séð á undanförnum árum.

Talan í fyrirsögninni vísar til lengdar þjóðvega í umsjón Vegagerðarinnar sem ekki eru lagðir bundnu slitlagi. Malarvegirnir eru raunar lengri en þeir sem klæddir eru, en 5.600 kílómetrar af þjóðvegum eru með bundnu slitlagi. Við verðum að gera betur.

Hvers vegna?

Samgöngur eru stærsta byggðamálið en jafnframt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál. Bættar samgöngur skipta flesta Íslendinga miklu máli og örugglega alla íbúa í Norðausturkjördæmi.

Hér er af nógu að taka. Fækkun einbreiðra brúa, stytting leiða innan landshluta og stækkun atvinnusvæða, endurgerð stórra brúa eins og á Lagarfljóti og Jökulsá á Fjöllum, uppbygging og lagning slitlags á malarvegi.

Allt eru þetta framkvæmdir sem eru viðkomandi landshlutum gríðarlega mikilvægar og mætti vel nefna mun fleira. Íbúar í kjördæminu þurfa fulltrúa á Alþingi sem taka þessa stöðu alvarlega og eru tilbúnir að berjast fyrir úrbótum.

Fagleg vinnubrögð og sameiginleg sýn.

Það er afskaplega mikilvægt að á hverjum tíma liggi fyrir samgönguáætlun og fjármálaáætlun sé í samræmi við hana. Það ástand sem skapaðist þegar í ljós kom að ekki var vilji til að fjármagna samþykkta samgönguáætlun er óásættanlegt. Þá er samgönguáætlun lítils virði. Þegar ekki liggur fyrir áætlun veldur það óhjákvæmilega áhyggjum, óöryggi og óvissu íbúa byggðarlaga sem búa við ótryggar samgöngur. Óvissa um hvað er fram undan í samgöngumálum getur oft og tíðum leitt til óeiningar í samfélaginu. Skýr stefna í samgöngumálum til lengri tíma er mikilvægur liður í sátt og sameiginlegri framtíðarsýn landsmanna.

Þó að mikilvægt sé að sýna ábyrgð þegar kemur að útgjaldaaukningu hins opinbera er ekki hægt að horfa fram hjá brýnni þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum. Opinbert fjárfesting er lítil og afleiðing þess er að innviðir rýrna, sem dregur úr samkeppnishæfni samfélagsins. Það er bráðnauðsynlegt að byggja upp samgöngumannvirki til að viðhalda samkeppnishæfni jafnt einstakra landshluta sem landsins í heild. Því þetta skiptir miklu máli fyrir landið allt. Þegar málin eru skoðuð af hlutlægni og sanngirni tel ég að unnt sé að ná samfélagslegri sátt um að verja hærra hlutfalli þjóðartekna í samgöngur.

Líneik Anna Sævarsdóttir.