32% búfjáreigenda eiga eftir að skila haustskýrslu

Geta misst stuðningsgreiðslur

0
105

Miðað við skil búfjáreigenda á haustskýrslu (forðagæsluskýrslu) lítur út fyrir að töluverður fjöldi framleiðanda missi stuðningsgreiðslur á næsta ári sem kveðið er á um í búvörusamningum ef fram fer sem horfir. Um er að ræða stuðningsgreiðslur sem samið var um í samningum um starfsskilyrði viðkomandi búgreina og taka gildi frá og með 1. janúar 2017.

Í samræmi við lög um búfjárhald nr. 38/2013 skulu umráðamenn búfjár skila árlega inn haustskýrslu um búfjáreign, fóður og eftir atvikum landstærðir.

Einungis 68.3 % búfjáreigenda höfðu skilað inn haustskýrslu í dag samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarstofu. Ljóst er því að margir eiga það á hættu að missa stuðningsgreiðslur á næsta ári, en um 1600 aðilar voru ekki búnir að skila inn haustskýrslu kl 15:00 í dag.

Dýrareftirlitssvæði     Skilahlutfall       eftir að skila

Norðvesturumdæmi        83%                 130  aðilar
Vesturumdæmi               82%                 200
Norðausturumdæmi        73%                 220
Austurumdæmi                68%                130
Suðurumdæmi                68%                 360
Suðvesturumdæmi          34%                 550

Skilafrestur framlengdur

Fram kemur á vef Matvælastofnunar að frestur til að skila haustskýrslu hefur verið framlengdur til og með 1. desember.nk. og eru umráðamenn búfjár hvattir til að skila inn haustskýrslu fyrir þann frest. Sé haustskýrslu ekki skilað innan ofangreinds frests skal Matvælastofnun framkvæma skoðun hjá viðkomandi umráðamanni á hans kostnað

Um skráningu á Haustskýrslu.

Allir búfjáreigendur geta með auðveldum hætti gengið frá haustskýrslu í Bústofni. Aðgangur að Bústofni fæst með rafrænum skilríkjum eða kennitölu og Íslykli.

Þeir sem þurfa á aðstoð að halda er bent á að hafa samband við dýraeftirlitsmenn MAST í síma 530-4800 eða í gegnum mast@mast.is. Þeir sem ekki hafa tök á því að skila sjálfir í gegnum Bústofn stendur til boða þjónusta Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), fyrir þá þjónustu er innheimt samkvæmt gjaldskrá RML.

Rétt er að árétta að hross þarf að telja fram á haustskýrslu hjá eiganda eða umráðamanni eins og annað búfé. Ef vafi leikur á hvar eigi að telja hrossið fram er hægt að leita aðstoðar hjá dýraeftirlitsmönnum Matvælastofnunar eða starfsfólki búnaðarstofu stofnunarinnar.

Leiðbeiningar um skráningum haustskýrslu

MAST