Norðlendingur ársins 2012 hefur verið kosinn, það voru lesendur Akureyrar vikublaðs sem kusu Ragnheiði Gunnarsdóttur á Akureryri og hlaut hún nafnbótina fyrir að opna athvarf fyrir heimlislausa ketti á Akureyri, halda úti vefsíðu og finna köttum ný heimili. Í öðru sæti varð Edda Bára Höskuldsdóttir liðveitandi, hún starfar á sambýli á Akureyri.
En það hefur ekki komið frá á þessari góðu fréttasíðu að í þriðja sæti varð Hermann Aðalsteinsson Lyngbrekku hann hlaut fjölda atkvæða, annars vegar fyrir framtak sitt með fréttavefinn 641.is þar sem hann er stofnandi og ábyrgðarmaður, hins vegar fyrir framlag sitt til skákeflingar í héraði. Þau sem lesa 641.is þekkja dugnað Hermans við fréttaöflun vel, og þarf ekkert að hafa fleiri orð um það. Færri heyra af framgangi Hermanns fyrir skák listina sem er auðvitað mikil íþrótt.
Hermann er formaður skákfélagsins Goðinn-Mátar. Hermann er óþreytandi við að koma í grunnskóla Þingeyjarsveitar með skákæfingar og skákmót. Hermann stóð m.a. fyrir því að fá hér norður í sveit, í samvinnu við Skáksamband Íslands, Landsmótið í skólaskák í maí s.l. tókst mótið mjög vel, aðal styrktaraðili var Þingeyjarsveit.
Í tilefni af skákdeginum þann 26. janúar n.k. mun Goðinn–Mátar og velferðarsjóður þingeyinga taka höndum saman og safna peningum fyrir sjóðinn. Félagsmenn Goðinn-Mátar munu verða í anddyri gamla kaupfélagsins á Húsavík með skákborð og gefst fólki kostur á að tefla við félgasmenn og greiða 500 kr. hið minnsta fyrir skákina. Ef einhver gesta vinnur félagsmann, verður viðkomandi umsvifalaust innlimaður í skákfélagið og fær fyrsta árgjaldið frítt. Allur ágóði af þessari skemmtilegu uppákomu rennur til Velferðarsjóðs Þingeyinga. Til hamingju með þetta Hermann.

Hermanni Aðalsteinssyni
skrifað af Heiðu Kjartans.