224 bújarðir urðu fyrir tjóni í septemberóveðrinu

0
89

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að Bjargráðasjóði  verði veittar 120 m. kr. af óskiptum fjárheimildum ársins 2012 til að bæta tjón sem varð í óveðrinu á Norðurlandi 9. – 11. september sl.  Jafnframt verði Bjargráðasjóði heimilað að nýta  20 – 30 m. kr. ónýttar fjárheimildir sem sjóðurinn fékk vegna eldgosa og þannig gert kleift að greiða bætur vegna tjóns sem áætlað hefur verið tæpar 142 milljónir króna. Vikudagur.is segir frá þessu í dag.

Hjördís Ólafsdóttir frá Bjarnastöðum grefur upp dauðar ær.
Mynd: Friðrika Sigurgeirsdóttir

 

 

Samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruvá hefur undanfarið fjallað um tjón af völdum óveðurs á Norðurlandi og hefur staðið yfir heildstæð gagna- og upplýsingaöflun á grundvelli minnisblaða sem ríkisstjórnin hefur vísað til hópsins. Ríkisstjórnin samþykkti síðast á fundi sínum þann 28. september 8 milljóna króna stuðning til almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra vegna frekari björgunaraðgerða á Norðurlandi.

 

 

Ríkisstjórnin ákvað í kjölfar óveðursins að tillögu atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að uppgjör tjóna hjá bændum færi í gegnum A-deild Bjargráðasjóðs enda megi jafna veðurofsanum og afleiðingum hans til náttúruhamfara, auk þess sem lýst var yfir almannavarnarástandi á svæðinu. Ljóst var einnig að kostnaður sjóðsins yrði umtalsverður vegna tjónsins og langt umfram þær fjárheimildir sem sjóðurinn hefur til umráða. Beðið hafði verið eftir heildstæðu mati sjóðsins á þessum kostnaði og nú liggur það mat fyrir.

Á tjónasvæðinu er áætlað að 224 jarðir hafið orðið fyrir tjóni. Á þessum bæjum vantar 6.318 lömb og 3.105 ær, þ.e. fjárfjöldi alls 9.423. Þá hafa 50 nautgripir farist og 132 km af girðingum eru skemmdar, illa farnar eða ónýtar. Áætlaður heildarkostnaður Bjargráðasjóðs  vegna þessa tjóns eru tæpar 142 milljónir króna og nær það til bóta á búfénaði, fóðurkaupa, tjóns á girðingum og annarra þátta. Bjargráðasjóður tekur fram að til staðar sé ónýtt fjárveiting sem sjóðurinn fékk vegna eldgosa sem nemur  20-30 m.kr. og hefur óskað eftir því að fá heimild til að nýta þá fjármuni til að mætakostnaði við uppgjör á tjónum á Norðurlandi. Þar að auki hefur ríkisstjórnin eins og fram hefur komið nú samþykkt að sjóðurinn fái fjárframlag úr ríkissjóði að upphæð allt að 120 milljónir króna til viðbótar.

Samráðshópur ráðuneytisstjóra fór  yfir tjónamatið og áætlun Bjargráðasjóðs um kostnað vegna tjóns.