175 sm þykkt snjófarg á fjárhúsþakinu á Grímsstöðum

0
125

Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit var kölluð út í gær til þess að aðstoða ábúendur á Grímsstöðum á Fjöllum við að moka snjó af fjárhúsþakinu þar á bæ, en gríðarlegt snjófarg hvíldi á þakinu. Að sögn Andra Karlssonar liðsmanns Björgunarsveitarinnar Stefáns var snjódýptin á þakinu orðin 175 cm þar sem hún var mest og einhverjir stálbitar í þakinu voru farnir að svinga undan farginu. Þakið hafði þó ekki hrunið niður og voru ábendur búnir að setja auka stoðir undir þakið til þess að koma í veg fyrir það.

Kaðli var brugðið fyrir snjófleka og hann svo dreginn niður af þakinu. Mynd: Andri Karlsson.
Kaðli var brugðið fyrir snjófleka og hann svo dreginn niður af þakinu. Mynd: Andri Karlsson.

Vel gekk að moka snjónum af þakinu eins og sést á meðfylgjandi myndbandi, sem Andri Karlsson liðsmaður Björgunarsveitarinnar Stefáns tók, en til að flýta fyrir mokstrinum var þessari aðferð beitt sem á myndbandinu sést. Snjórinn var bókstaflega “dreginn” af þakinu með traktorsgröfu.

Mikið hefur snjóað að undanförnu í innsveitum eins og í Mývatnssveit og Bárðardal og sumsstaðar er kominn meiri snjór í innsveitum en í fyrra. Í lágsveitum sýslunnar er hinsvegar mun minni snjór en í fyrra og næstum autt er í sumum sveitum.