14,48% útsvar og ný búfjársamþykkt

0
140

113. fundur sveitartjórnar Þingeyjarsveitar var haldinn sl. fimmtudag. Þar var fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árið 2013 og árin 2014-2016 ásamt tillögum að gjaldskrám, teknar til fyrri umræðu. Sveitarstjórn fór yfir tillögur að gjaldskrám 2013 og vísaði þeim til viðeigandi nefnda. Samþykkt að álagningarprósenta útsvars 2013 verði óbreytt eða 14,48%. Fyrri umræðu var frestað til næsta fundar.

Á fundinum var einnig samþykkt um búfjárhald í Þingeyjarsveit tekin til fyrri umræðu.

Drögin eru svo hljóðandi:

 

DRÖG:    SAMÞYKKT

            fyrir búfjárhald í Þingeyjarsveit.

            1. gr.

            Samþykkt þessi er sett til að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Þingeyjarsveit, með ákvæðum um vörsluskyldu og ábyrgð allra búfjáreigenda og gæta þess að hús fyrir búpening og önnur aðstaða sé þrifaleg og í samræmi við gildandi lög og reglur hverju sinni.

            2. gr.

            Með búfé í samþykkt þessari er átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín sbr. lög um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002 með síðari breytingum.

            3. gr.

            Þeir , sem halda búfé á lögbýlum  í Þingeyjarsveit, samkvæmt búfjáreftirlitsskýrslum við gildistöku samþykktar þessarar hafa leyfi til búfjárhalds í Þingeyjarsveit er samþykkt þessi  tekur gildi, en verða    að tilkynna til sveitarstjórnar er búfjárhaldi lýkur þannig að sveitarstjórn geti uppfyllt ákvæði 4. gr. ll. kafla um búfjárhald nr.103/2002. Búfjárhald  utan lögbýla er einungis heimilt að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

            Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds samkvæmt 2. gr. skal senda skriflega umsókn  til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar. Í umsókninni skal  tilgreina tegund búfjár, fjölda þess, húsakost og      annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu. Telji  sveitarstjórn að umsækjandi  uppfylli þau skilyrði, sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og samþykktar þessarar, veitir hún leyfið. Leyfið er gefið út á nafn og kennitölu og er ekki framseljanlegt.

            4. gr.

            Byggingar gripahúsa utan lögbýla eru einungis leyfðar á ákveðnum svæðum sem skipulögð eru fyrir búfjárhald.

            5. gr.

            Skilyrði fyrir búfjárhaldi í Þingeyjarsveit eru þau sömu og almennt gilda í landinu, þ.e. að allir þeir sem búfjárhald stunda, jafnt á lögbýlum sem utan þeirra, uppfylli ákvæði gildandi laga og reglugerða um búfjárhald, aðbúnað búfjár, sjúkdómavarnir, auðkenningu og merkingu, afréttamál o.fl. í samræmi við aðild sveitarfélagsins að búfjáreftirlitssvæði  nr. 19

            6. gr.  

             Lausaganga búfjár utan lögbýla er óheimil á  þéttbýlissvæðunum innan Þingeyjarsveitar. Þéttbýlissvæðin eru við Laugar, við Hafralækjarskóla í Aðaldal og við Stórutjarnaskóla sbr. Aðalskipulag Þingeyjarsveitar.

            Þingeyjarsveit skuldbindur sig, í samvinnu við aðra landeigendur, til að tryggja að vörslulínur um þéttbýlissvæði séu fjárheldar skv. reglugerð um girðingar nr. 748/2002, að haldið sé uppi            reglubundnu eftirliti með girðingum þessum frá vori til hausts, þó með skilyrðum girðingarlaga nr. 135/2001 um rétt til kostnaðarskiptingar landeigenda sem eiga land að umræddum vörslulínum.           Þingeyjarsveit tryggir einnig að búfé sem fram kann að koma innan þéttbýlissvæða í sveitarfélaginu sé handsamað, skráð og tilkynnt til eiganda.

           

            Verði ágangur eða tjón af völdum búfjár þrátt fyrir að vörslulínur uppfylli skilyrði skv.    girðingalögum nr. 748/2002 áskilur Þingeyjarsveit sér rétt til að innheimta hjá búfjáreiganda útlagðan kostnað við handsömun og vörslu lausagöngufénaðar.

            7. gr.

            Brot gegn samþykkt þessari varða sektum og með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

            8. gr.

            Samþykkt þessi er samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og staðfestist hér með samkvæmt 5. gr. laga nr. 103/2002,  ásamt síðari breytingum, til þess að öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi fyrri Samþykkt um lausagöngu stórgripa í Aðaldal.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 18 gr. skulu samþykktir og aðrar reglur sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra fá tvær umræður í sveitarstjórn, með a.m.k. einnar viku millibili. Samkvæmt lögum um búfjárhald nr. 103/2002 m.s.b.r. skal ráðherra staðfesta samþykktir um búfjárhald og birta í Stjórnartíðunum að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.

Sveitarstjórn vísar samþykkt um búfjárhald í Þingeyjarsveit til síðari umræðu.

Sjá alla fundargerðina hér