Vorið komið á Tjörnesi

Atil Vigfússon skrifar

0
597

Það var óvænt sjón sem blasti við Guðmundi Geir Benediktssyni bónda í Mýrarkoti á Tjörnesi þann 17.mars sl. þegar hann kom í fjárhúsin. Þá hafði ærin Svört borið tveimur gimbrum og því hafði  heldur betur fjölgað í húsunum. Hann hringdi strax í Sigurbjörgu Sveinbjörnsdóttur konu sína og sagði tíðindin og varð hún líka hissa, en vissi samt að Svört hafði verið þyngri á sér en aðrar ær og verið farin að búast til. Að ærin myndi bera svona snemma var enginn búinn að láta sér til hugar koma.

Gimbrarnar eru fallegar og eru prýði í fjárhúsunum og barnabörnin eru mjög hrifin. Þær hafa fengið nöfn og heita Birta og Júlía. Guðmundur reiknar með að þær verði settar á í haust, því ef að líkum lætur þá verða þær orðnar stórar og myndarlegar þegar lífgimbrarnar verða valdar.

Eins og sést á myndinni er snjór á Tjörnesi og líklega er langt í að gimbrarnar fari út með móður sinni til beitar. Þær eru nú þegar farnar að braggast og leika sér, eru mannelskar og skoða hey.

Þetta eru vorboðar, en hvort vorið er alveg komið skal ósagt látið.