Vondur hagnaður og góður

0
214

Mikið hefur gengið á í netheimum síðan fréttir bárust af því að Samherji hefði á síðasta ári hagnast um 15,7 milljarða. Mörg ljót orð hafa fallið um fyrirtækið, stjórnendur þess og eigendur. Íslandsbanki hagnaðist um 6,6 milljarða á öðrum ársfjórðungi þessa árs, og ef rekstur bankans gengur áfram með svipuðum hætti gæti árs hagnaður orðið 26,4 milljarðar króna. Bankinn hefur þarna betur en Samherji.

Gílsi Sigurðsson
Gísli Sigurðsson

Mörgum rétttrúuðum þykir afar slæmt þegar sjávarútvegsfyrirtæki greiða íslenskum eigendum sínum arð. Þá tala menn ljótt. Íslandsbanki hefur á þessu ári greitt eigendum sínum, sem eru erlendir, aðeins 3 milljarða í arð. Sama fólki virðist finnast þetta hið besta mál, menn bölva gjaldeyrishöftunum, en vegna þeirra hefur bankinn ekki getað greitt meiri arð úr landi.

Samherji hagnast á nýtingu „þjóðarauðlindarinnar“, margir tala um rányrkju og finnst algerlega óþolandi. Íslandsbanki hagnast hins vegar á nýtingu þjóðarinnar, sem sama fólk virðist telja hið besta mál og rányrkja hvarflar ekki að nokkrum rétttrúuðum manni.

Fróðlegt væri nú að bera saman útflutningsverðmætin sem Samherji skapar annars vegar, og Íslandsbanki hins vegar. Ég er hræddur um að Samherji hafi vinninginn þar, og best gæti ég trúað að það væri einmitt Samherji sem aflar gjaldeyrisins sem Íslandsbanki notar til að greiða arðinn úr landi. Rétttrúnaðarmenn tala lítið um það.

Meðan Samherji hefur verið í nokkuð stöðugum vexti og víða fjölgað starfsmönnum, þá hefur Íslandsbanki fækkað starfsmönnum um 6% og vonast til að fækka þeim enn meira. Þannig kreistir bankinn meira út úr hverjum starfsmanni til handa erlendum eigendum.

Næst þegar bankarnir hrynja, þá verða það framleiðslufyrirtæki eins og Samherji sem munu halda í okkur lífinu. Alveg eins og síðast þegar bankarnir hrundu. Fyrirtæki sem skapa raunveruleg verðmæti. Verðmæti sem spara innflutning, og verðmæti sem hægt er að selja úr landi til að fjármagna innflutninginn sem við getum ekki verið án.

Vonandi verður heimskan ekki búin að drepa bæði landbúnaðinn og sjávarútveginn þegar þar að kemur, eins og hún á sínum tíma drap iðnaðinn að miklu leiti.

Gísli Sigurðsson.