Vogafjós er bær mánaðarins í nóvember

0
76

Ferðaþjónustan í Vogafjósi hefur vaxið og dafnað allt frá því að fjölskyldan að Vogum fór fyrst að bjóða gestum að skoða fjósið, en þess má geta að jörðin er búin að vera í eigu sömu fjölskyldunnar kynslóð eftir kynslóð í um 120 ár.  Í dag rekur fjölskyldan gistiheimili með 26 vel útbúnum herbergjum með baði, veitingahús og sveitaverslun í fallegu umhverfi við Mývatn.  

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er mat starfsfólks Ferðaþjónustu bænda að rekstraraðilarnir þau Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir, Jón Reynir Sigurjónsson, Leifur Hallgrímsson og Gunnhildur Stefánsdóttir leggja mikinn metnað í að vanda til verka hvort sem um er að ræða þjónustu við gesti, metnað í matargerð eða fallegt umhverfið með sína fjölbreyttu möguleika til afþreyingar. Þá hefur þessi vinna skilað sér í ánægðum gestum eins og umsagnir viðskiptavina gefa til kynna.

Vogafjós hefur frá upphafi lagt áherslu á tengingu við landbúnað í sinni starfsemi. Mikill metnaður er lagður í matargerð en bærinn er einn af frumkvöðlum Beint frá býli, félagi heimavinnsluaðila. Veitingastaðurinn er einstaklega vel staðsettur með útsýni yfir vatnið og þar er einnig sveitaverslun þar sem hægt er að kaupa afurðir búsins auk handverks og taka með sér heim.

Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir gestgjafi í Vogafjósi segir nánar frá veitingastaðnum: „Þegar við ákváðum að halda áfram að framleiða mjólk á bænum fengum við hugmyndina um að opna fjósið og fara út í ferðaþjónustu. Sum borðin á veitingastaðnum eru staðsett við glugga inn í fjósið og gestum okkar býðst þannig að fylgjast með þegar við mjólkum kýrnar daglega kl. 7:30 og 17:30. Það er líka hægt að fá að smakka spenvolga mjólk beint úr kúnum, eitthvað sem vekur gjarnan lukku hjá yngri kynslóðinni.

Metnaðurinn leynir sér ekki en Ólöf segir áfram stolt frá hugmyndafræðinni á bakvið veitingastarfsemina: „Okkur finnst gaman að geta boðið fólki að njóta veitinga frá býlinu. Hér er hægt að gæða sér á ýmsum heimagerðum og lífrænum afurðum sem við vinnum hér á bænum eins og reyktum silungi, hverabrauði, tvíreyktu hangikjöti og ostum. Okkur finnst mikilvægt að fólk viti hvaðan maturinn kemur og hvað er í honum. Við prófum okkur líka gjarnan áfram með uppskriftir. Hverabrauðsísinn okkar er til dæmis svo sannarlega óvenjulegur en mjög vinsæll meðal gesta!“ 

Vogafjós er vel staðsett við eina helstu náttúruperlu landsins, Mývatn. Svæðið býður upp á marga möguleika til skoðunarferða s.s. til Kröflu og Dimmuborga og tilvalið er að láta þreytuna líða úr sér eftir daginn í Jarðböðunum. Á svæðinu er líka fjölskrúðugt fuglalíf. „Hér er sveitin ekki síður falleg á veturna og staðsetningin er tilvalin fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með norðurljósunum“, segir Ólöf.

Vogafjós býður einmitt upp á sérstaka aðventudvöl í nóvember og desember. „Þá förum við í jólabúning og gestum gefst tækifæri á að eiga góðar stundir hér í sveitinni, heimsækja Jarðböðin og Fuglasafn Sigurgeirs, baða sig í Grjótagjá og síðast en ekki síst heimsækja jólasveinana í Dimmuborgum! Mataráherslan hjá okkur er ekki síður sterk í kringum þennan viðburð en þann 17. nóvember í ár munum við bjóða upp á kaffihlaðborð í tengslum við heimsóknina í Dimmuborgir og svo verðum við með sérstakan árbít helgina 8.-9. desember þar sem mývetnskar krásir beint frá býli verða á boðstólum” segir Ólöf að lokum. 

Fréttatilkynning.  Sjá nánar á sveit.is