VÍS styður við bakið á bændum á Norðurlandi

0
208

Vátryggingafélag Íslands leggur eina og hálfa milljón króna til fjársöfnunar fyrir bændur á Norðurlandi  sem urðu fyrir búsifjum í veðuráhlaupinu nyrðra snemma í september, þar sem talið er að 10 þúsund fjár hafi farist.

Á myndinni eru Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS, Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra og formaður verkefnisstjórnunar söfnunarinnar og Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Sölu-og þjónustusviðs VÍS.

 

Söfnun til að styðja við bakið á bændum var hleypt af stokkunum á Sauðárkróki nýverið, í tengslum við bændadaga KS. Sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með söfnuninni og leitaði VÍS til hennar um að taka á móti fjárstyrki félagsins til bænda. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður nefndarinnar tók við styrknum frá VÍS fyrir hönd söfnunarinnar.

„Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég var kallaður til fundar hjá VÍS og fann strax að hugur Sigrúnar Rögnu, Auðar Bjarkar og annarra VÍS-ara var hjá fólkinu fyrir norðan. Þær stöllur nýbúnar að kynna sér störf bænda þar og koma við í hinum afkastamiklu sláturhúsum bæði á Sauðárkróki og Akureyri. Mitt góða félag VÍS stendur undir nafni: Þar snúast tryggingar um fólk. Það er gott til þess að vita að þjóðin eigi enn það hjartalag að landsmenn finna til í stormum sinnar tíðar,“ sagði Guðni Ágústsson þegar hann veitti styrknum viðtöku og þakkaði fyrir frumkvæðið.

„Við viljum leggja okkar að mörkum til að létta undir með bændum í þeim hremmingum sem þeir lentu í 10. september síðastliðinn. Það hefur verið lofsvert að fylgjast með þrautseigju þeirra sem og allra annarra sem lögðu hönd á plóg til að bjarga fénu.  Leiðir VÍS og bænda liggja saman á svo mörgum sviðum að það er með mikilli ánægju sem við tökum þátt í þessari söfnun,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS.

VÍS hefur alla tíð lagt ríka áherslu á veita bændum bestu þjónustu sem völ er á enda fjölmargir þeirra í viðskiptum við félagið.  Árið 1999 var gerður sérstakur rammasamningur við Bændasamtökin þar sem landbúnaðartrygging VÍS er hornsteinninn. Sex bændafulltrúar starfa hjá VÍS sem ýmist heimsækja eða hafa reglulega sambandi við bændur til að fara yfir tryggingaþörf þeirra, forvarnir og öryggismál. Með sívaxandi áherslu á forvarnir og nánu samstarfi við viðskiptavini má í mörgum tilvikum fyrirbyggja tjónin, öllum til hagsbóta.