Virkjum kraftinn og sækjum fram

0
99

Nú er tæpur mánuður til kosninga og vorið farið að minna á sig. Endalok núverandi ríkisstjórnar minna líka á sig og gefur manni nýja von. Fjölmargir Íslendingar eru hugsi um hver einustu mánaðamót hvernig og hvar hver einasta króna þurfi að ráðstafast þannig að dæmið gangi upp. Það gladdi mig því óneitanlega að hugsa til þess að mánaðamótin verða alltaf færri og færri þar sem óvissan um framhald okkar er eins skerandi og núna. Höfum kjark til að sækja fram, lækkum skatta og aukum með því ráðstöfunartekjur einstaklinga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram raunhæfar tillögur sem hægt er að hrinda í framkvæmd strax.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir

Fjölbreytt, öflugt og gott atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að byggja upp sterkt samfélag á Íslandi og er undirstaða góðs velferðarkerfis. Allar atvinnugreinar þurfa starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til lengri tíma. Yfir 200 skattabreytingar á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið voru ekki til þess fallnar að hvetja til fjárfestinga eða til þess að huga að stöðugum rekstrargrundvelli fyrirtækja. Þær voru ekki hvetjandi fyrir fyrirtæki til þess að ráða nýja starfsmenn eða greiða starfsmönnum hærri laun. Þær voru fyrst og fremst til þess fallnar að draga hvata úr starfandi fyrirtækjum þannig að úr varð einhæfara og veikara atvinnulíf sem stenst seint samanburð þeirra þjóða sem við viljum svo gjarnan geta borið okkur saman við.

Þessu verðum við að breyta, við verðum að skilja að með því að sækja fram á öllum sviðum atvinnulífsins náum við að efla og virkja þann gríðarlega kraft sem býr í okkur Íslendingum til stórsóknar fyrir land og þjóð. Stefna Sjálfstæðisflokksins gengur út á lækkun tryggingagjalds og virðisaukaskatts og sanngjarnrar gjaldtöku fyrir sameiginleg not af náttúruauðlindum. Þannig verður til hvetjandi starfs- og rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum sem vinna að aukinni verðmætasköpun fyrir landið, þannig aukum við raunverulegan hagvöxt til lengri tíma.

Tökum stöðuna með Íslandi og gerum það saman, hér á að vera best að vera, hér á að vera hægt að velja milli óteljandi tækifæra og nýta auðindir okkar til atvinnusköpunar, bæði náttúruauðlindir til lands og sjávar sem og þá ótæmandi auðlind sem felst í hugviti og menntun.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.