Vill afnema tengingu launa sveitarstjórnarmanna við þingfararkaup

0
246

Ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun Alþingismanna um 44% sem sagt var frá í upphafi síðustu viku, hefur valdið mikilli ólgu í þjóðfélaginu. Þing­far­ar­kaup hef­ur verið hækkað um 338 þúsund krón­ur á mánuði og verður rúm­ar 1.100 þúsund krón­ur, sam­kvæmt ákvörðun Kjararáðs.

Ragnar Bjarnason
Ragnar Bjarnason

En þessi ákvörðun Kjararáðs hefur líka bein áhrif á launakjör margra sveitarstjórnarmanna víða um land því laun þeirra taka mjög víða mið af þingfararkaupi. Hlutfallið sem sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsveit fá sem föst mánaðarlaun fyrir setu í sveitarstjórn er 10% af þingfararkaupi. Hækkun þingfararkaups um 44% hækkar því hlutfallslega upphæðina sem sveitarstjórnarmenn fá í mánaðarlaun.

Ragnar Bjarnason annar fulltrúi T-listans sem er í minnihluta í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vakti athygli á þessu í færslu á Facebook nýlega þar sem hann vill breyta þessari tenginu við þingfarakaup. Hann ætlar að óska eftir umræðu um launakjör sveitarstjórnarfulltrúa á næsta fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.

Færsla Ragnars.

Í kjölfar úrskurðar kjararáðs um launakjör Alþingismanna hef ég óskað eftir umræðu um launakjör sveitarstjórnarfulltrúa Þingeyjarsveitar á næsta fundi sveitarstjórnar. Launakjör sveitarstjórnarfulltrúanna eru jú hlutfall þinfararkaups. Ég tel réttast að breyta þessari tengingu og miða við einhvern annan hóp sem hefur almennari launaþróun og líst í þeim efnum ágætlega á tengingu við ákveðinn launaflokk í kjarasamningi skólastjórafélagsins.
Þá eru þessi fáránlegu launastökk úr sögunni.

 

Í dag fær Ragnar sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar greidd föst mánaðarlaun óháð fundarsetu. Upphæðin nú er rúmlega 76.000 krónur á mánuði, sem er 10% af þingfararkaupi (fyrir hækkun Kjararáðs). Að auki fær hann 2,5% af þingfararkaup í viðbót fyrir hvern sveitarstjórnarfund sem hann situr. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fundar á hálfs mánaðar fresti að jafnaði og ef reiknað er með tveim fundum í mánuði getur sveitarstjórnarfulltrúi fengið gróft reiknað um 115.000 krónur í laun á mánuði, mæti hann á alla fundi. En eftir ákvörðun Kjararáðs hækka laun sveitarstjórnafulltrúanna í c.a. 165.000 krónur á mánuði miðað við sömu forsendur. Þá eru ótalin laun fyrir nefndarstörf.

Ragnar sagði í spjalli við 641.is að útgjöld Þingeyjarsveitar gætu aukist um 5-6 milljónir á ári komi þessi launahækkun til framkvæmda, verði sveitarstjórnarfundir álíka margir og verið hefur.

Ragnar bar fram þá tillögu að sveitarstjórnarfulltrúar lækkuðu föst laun sín úr 10% af þingfararkaup í 9% og samsvarandi lækkun yrði á nefndarlaunum á sveitarstjórnarfundi 16.desember 2014. Tillagan var felld með fimm atkvæðum fulltrúa A lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa T lista.

Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar sagði í spjalli við 641.is að málið verði tekið fyrir á næsta fundi.

“Frá því málið kom upp hefur það ekki verið rætt enda engin sveitarstjórnarfundur verið haldinn síðan þetta kom upp. Það er sveitarstjórnarfundur á dagskrá á miðvikudag (á morgun) og málið verður eflaust rætt á þeim fundi þó það sé ekki á formlegri dagskrá fundarins”, sagði Yngvi Ragnar Kristjánsson oddviti Skútustaðahrepps aðspurður um málið.

Næsti fundur sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar fer að óbreyttu fram fimmtudaginn 17. nóvember nk.