Víkurskarðið ófært í 30 daga.

0
223

„Víkurskarð er ófært og hefur nú líklega verið lokað hátt í 30 daga það sem af er vetri,“ segir í frétt á vef Akureyrarbæjar. Þar segir frá því að stór flutningabíll á austurleið sitji fastur á miðjum vegi í stórhríðinni en Sigurður Jónsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri segir bílinn reyndar ekki sitja fastan heldur hafi hann hreinlega ekki komist lengra vegna snjóa í skarðinu.

Vefmyndavél á Víkurskarðinu í dag.
Vefmyndavél á Víkurskarðinu í dag.

„Hann er ekkert að teppa umferðina, það er bara ófært um skarðið vegna snjóa. Hann ætlaði yfir í morgun en þá var skarðið bara við það að lokast, það hafði verið vel fært hálftíma áður en veðrið versnaði mjög hratt þarna á þessum tíma,“ segir Sigurður og bætir því við að mokstursmenn hafi lent í vandræðum í skarðinu í morgun og meðal annars misst einn bíl út af.

Skarðið verði opnað þegar veðrinu slotar.

Ferðaþjónustuaðilinn Saga Travel ætlaði með um 40 erlenda ferðamenn austur að Dettifossi og Mývatni í dag en aflýsa varð þeirri ferð vegna ófærðarinnar. Ferðamannahópnum var þá safnað saman í Menningarhúsinu Hofi og málin rædd. Í staðinn fyrir ferð austur á bóginn var þeim boðið upp á kynnisferð um Eyjafjörð að smakka mat úr héraði þar sem meðal annars yrði staldrað við hjá Kaffi kú í Eyjafjarðarsveit, Ektafiski á Hauganesi og Bruggsmiðjunni á Árskógssandi.

Um fjórðungur ferðamannanna ákvað að halda heim á hótel en aðrir þáðu með þökkum ævintýraferð með trukkum fyrirtækisins út í kófið.

Mjög slæmt veður er nú á Norðurlandi. Öxnadalsheiði er ófær, stórhríð er í Húnavatnssýslum, á Þverárfjalli og Tröllaskaga. Ófært er á Siglufjarðarvegi, í Héðinsfirði, í Ólafsfjarðarmúla og til Grenivíkur. Stórhríð er í Ljósavatnsskarði og á Tjörnesi og óveður áfram þaðan austur á Raufarhöfn. Ófært er á Hófaskarði.

Öllu flugi innanlands hefur verið aflýst.   Frá þessu er sagt á akureyrivikublad.is