Það geta orðið mjög skæðir vindstrengir á Norðausturlandi þar sem suðvestanáttin nær sér á strik, í kvöld og fram á mánudag, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll eftir hádegi (jafnvel yfir 50 m/s þegar verst lætur) og engu ferðaveðri. Hættulegustu vindhviðurnar verða V-lands síðdegis, en á N-verðu landinu frá því seint í kvöld og fram á mánudagsmorgun.

Veðurspáin er svona: Gengur í suðaustan 18-25 m/s um og uppúr hádegi með rigningu, talsverð eða mikil úrkoma S-til á landinu. Hiti 2 til 9 stig. Snýst í suðvestan 20-30 undir kvöld, hvassast SV-lands í kvöld, en á N-verðu landinu frá miðnætti og fram á morgun. Kólnandi í kvöld með slydduéljum og síðar éljum á V-helmingi landsins. Dregur hægt úr vindstyrk í fyrramálið, suðvestan 13-18 síðdegis á morgun og áfram él, en úrkomulítið NA-til. Hiti um eða undir frostmarki.