Viðurkenningar í ferðaþjónustu á Norðurlandi 2016 – Sel – Hótel Mývatn fyrirtæki ársins

0
282

Markaðsstofa Norðurlands veitir árlega þrjár viðurkenningar til fyrirtækja og einstaklinga í ferðaþjónustu sem þykja hafa skarað fram úr á Norðurlandi. Viðurkenningarnar voru veittar á Uppskeruhátíð ferðþjónustunnar sem haldin var í Skagafirði 20. október 2016. Viðurkenningin fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði auk þess að vinna að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun. Það fyrirtæki sem fær viðurkenninguna í ár er Sel – Hótel Mývatn.

Sel Hótel. Mynd af Facebook-síðu hótelsins
Sel Hótel. Mynd af Facebook-síðu hótelsins

Árið 2000 var Sel – Hótel Mývatn tekið í notkun með 35 herbergjum en forsaga þess er sú að árið 1973 stofnuðu Sigrún Jóhannsdóttir og Kristján Yngvason verslunina og veitingastaðinn Sel að Skútustöðum. Núverandi rekstraraðilar þessa fjölskyldufyrirtækis eru Yngvi Ragnar Kristjánsson og Ásdís Erla Jóhannesdóttir. Þau hafa nýverið farið í mikla uppbyggingu á fyrirtækinu og luku vorið 2015 endurbótum á hótelinu en þá voru tekin í notkun 23 ný herbergi auk þess sem gestamóttakan, veitingasalir og fundasalir voru endurnýjaðir og stækkaðir.

Hótelið er því vel búið til að taka á móti einstaklingum og hópum auk þess sem þar er boðið upp á afþreyingu á Mývatnssvæðinu undir merkjum Mývatn Winter Activity. Á hótelinu er áralöng reynsla í því að bjóða afþreyingu fyrir gesti og er áhersla lögð á jeppaferðir, snjósleðaferðir, skíðagöngu, go-kart, golf og krikket á ís auk þess sem viðburðurinn Horses on Ice er haldinn. Öll afþreying byggir á þeirri sérstöku náttúru sem er í kringum Mývatn og veitir gestum tækifæri til að upplifa bæði náttúruna, fuglalífið og ekki síður mannlífið.

Sel – Hótel Mývatn voru brautryðjendur í þróun á vetrarferðaþjónustu við Mývatn og hafa lagt áherslu á að halda hótelinu opnu allt árið og byggja þannig upp eftirspurn að vetri. Uppbyggingarstarfið hefur sent þau skilaboð út á markaðina að Norðurland sé sterkur og öflugur valkostur að vetri til og því haft mikil og jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu á svæðinu allt árið og aukið möguleika fyrirtækja á heilsársrekstri.

Sjá nánar á nordurland.is