Við erum markaðsvædd !

0
87

Staða heimilanna í landinu ætlar að verða mál komandi alþingiskosninga. Samhliða því að ræða hvaða leiðir verður að fara til að leiðrétta skuldastöðu margra heimila, þá þarf að setja þessa stöðu þeirra í víðara samhengi. Vaxandi skuldir heimila eru nefnilega ekkert nýjar af nálinni, né séríslenskt fyrirbæri. Allt frá 9. áratug síðustu aldar hafa skuldir einstaklinga og heimila á Vesturlöndum vaxið gríðarlega sem hlutfall af skuldum þjóða. Sama gerðist hér á landi uppúr síðustu aldamótum. Við áramót 2007/2008 var skuldastaða íslenskra heimila komin í það horf sem hún er í dag. Eitthvað er því annað og meira á ferðinni en „stökkbreytt lán“.

Edward Huijbens
Edward Huijbens

Staðreyndin er að við höfum öll verið gerð að okkar eigin verðbréfamiðlurum, í gegnum þá mjög svo sérstöku hugmynd að allir þurfi að eiga steinsteypuna sem þeir búa í. Því hefur verið komið inn í vitund okkar að án spánýs einkabíls (og helst tveggja) komumst við ekki af. Okkur hefur verið talin trú um að velferð hvers og eins sé einungis undir okkur sjálfum komin. Því er svo komið að við trúum því að það sé okkar einna að „finna bestu tilboð á markaði hverju sinni“. Við höfum verið markaðsvædd og sem fyrr eru lausnir sumra á skuldavanda heimila, frekari markaðsvæðing.

 

 

Hvað legg ég þá til? Samhliða því að endurskilgreina þarf verðtryggingu, t.d. með því að tengja hana frekar þróun tekna heldur en markaðsvirði skulda, þá verðum við að komast útúr markaðsvæðingu lífs okkar. Ég vil að til verði valkostir við þá séreignastefnuna sem skyldað hefur launafólk á skuldaklafa fyrir lífstíð. Ég vil að til verði valkostir í samgöngum sem gera það raunverulegt val að eiga ekki bíl. Ég vil að byggt verði öflugt velferðakerfi og innviðir með sameiginlegum sköttum okkar sem gerir okkur öllum kleift að lifa með reisn óháð efnahag.

Ég vil að við hættum að trúa því að við séum eyland og að okkar sé einna að leita bestu tilboða í viðhaldi skulda okkar. Ég vil að við förum að trúa því að við séum samfélag þar sem öðru er hampað en neyslu og einkaeign. Góðærið býr nefnilega með okkur sjálfum og við eigum að leita hamingjunnar í fleiru en neysluverðsvísitölum. Við þurfum að leiðrétta skuldir, en samhliða búa svo um að það verði ekki aðeins til frekari skuldasöfnunar.

Edward H. Huijbens

Höfundur skipar 3. sætið á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.